Heldur á milljarðs dala hlut í Tesla

Larry Ellison.
Larry Ellison.

Larry Ellison, stofnandi Oracle, heldur á meira en milljarðs Bandaríkjadala hlut í Tesla að því er fram kemur í frétt Financial Times, sem vísar í gögn sem skilað var til eftirlitsaðila en aðeins eru tvær vikur síðan hann var kjörinn í stjórn rafmagnsbílaframleiðandans.

Ellison, sem sagði í október síðastliðnum að Tesla væri hans næstumfangsmesta fjárfesting, heldur á þremur milljónum hluta í rafmagnsbílaframleiðandanum samkvæmt gögnum sem skilað var til verðbréfaeftirlits Bandaríkjanna.

Ellison er náinn vinur forstjórans Elon Musk og var skipaður í stjórn Tesla í desember. Voru breytingarnar hluti af samkomulagi við verðbréfaeftirlitið og til þess fallnar að styrkja stjórn félagsins.

Musk samþykkti í september að skipa nýjan stjórnarformann og tvo sjálfstæða stjórnarmenn í kjölfar lögsóknar eftirlitsins á hendur honum þess efnis að hann hefði afvegaleitt fjárfesta í nokkrum færslum á Twitter þar sem hann talaði um að taka Tesla af hlutabréfamarkaði fyrir 420 Bandaríkjadali á hlutabréfið.

Kathleen Wilson-Thompson, yfirmaður mannauðsmála hjá Walgreens Boots Alliance, var einnig skipuð í stjórn Tesla í desember.

Robyn Denholm, fyrrverandi yfirmaður hjá ástralska samskipafyrirtækinu Telstra, var kjörinn stjórnarformaður í nóvember.

Ellison hefur lýst sér sem góðum vini Musk og hefur gagnrýnt fjölmiðlaumfjöllun um Musk opinberlega, en Musk olli nokkru fjaðrafoki er hann reykti gras í útvarpsþætti í beinni útsendingu, og fyrir orð sem hann lét falla um breskan kafara þegar björgunin á drengjunum sem festust í helli í Taílandi stóð sem hæst.

Hlutabréf Tesla hækkuðu um 6,9% á árinu 2018 á stormasömu ári hlutabréfa í tæknigeiranum.

Frétt Financial Times.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK