Verkefnið varð að ævistarfi

Guðmundur Pálmason.
Guðmundur Pálmason. Eggert Jóhannesson

Guðmundur Pálmason, annar af tveimur stærstu eigendum farsímaíhlutafyrirtækisins Strax, sem skráð er í Kauphöllina í Stokkhólmi og veltir 13 milljörðum íslenskra króna á ári, segir að tími sinn hjá félaginu hafi verið löng og ströng saga. Gengið hafi á ýmsu og enn séu nokkrir kaflar óskrifaðir. Í nýjasta kaflanum var dótturfélagið Gear4 selt með miklum hagnaði.

„Aðkoma mín að félaginu hófst árið 1999, fjórum árum eftir að það var stofnað. Á þessum tíma stundaði ég lögmennsku á Íslandi. Stofnendur Strax komu að máli við mig og báðu mig um aðstoð við að afla fjármagns á Íslandi. Ég kom þeim í samband við Búnaðarbankann Verðbréf, og í framhaldi af því var ég beðinn að taka sæti í stjórn fyrirtækisins. Þannig má segja að þetta verkefni hafi orðið að ævistarfi,“ segir Guðmundur, en eftir að hafa sinnt verkefnum fyrir félagið um tíma varð hann fullgildur starfsmaður þess árið 2001. „Þetta hefur verið langt og mikið verkefni, með löngum og erfiðum þurrkaköflum inn á milli.“

Til að varpa enn betra ljósi á ferlið bið ég Guðmund að skýra betur hvernig staða félagsins var á þeim tíma þegar hann kynntist því fyrst. „Fyrirtækið var tiltölulega nýlega stofnað þegar netbólan var í algleymingi og öll fyrirtæki sem gerðu eitthvað sem tengdist internetinu urðu hratt verðmæt og allir voru gríðarlega spenntir. Lykilástæðan fyrir því að það tókst að afla fjármagns til félagsins á þessum tíma var einmitt tengingin við netið. Strax ákvað sem sagt árið 1999 að fara í netsölu, og það bjó að reynslu og þekkingu á dreifingu á farsímum og íhlutum fyrir farsíma. Ég og Ingvi Týr Tómasson, meðeigandi minn í Strax, stofnuðum því ásamt Skúla Mogensen hlutafélagið mobilestop.com út úr Strax. Þannig var eftirleikurinn auðveldur hvað öflun hlutafjár varðar, þarna í miðri netbólunni. Hins vegar varð aldrei neitt úr þessu fyrirtæki og það lagði upp laupana árið 2001. Eftir á að hyggja mætti segja að við höfum verið um 15 árum of snemma á ferðinni með þessa hugmynd. Fjárfestarnir fengu hins vegar tækifæri til að koma aftur inn í Strax, sem sumir nýttu og aðrir ekki.“

Gott samstarf við Landsbankann

Hefur einhvern tímann brugðið til beggja vona í rekstri Strax?

„Já, reglulega, og nánast frá fyrsta degi,“ svarar Guðmundur. „Við höfum endurskilgreint okkur oft á þessu ferðalagi. Þegar hrunið varð árið 2008 vorum við að langmestu leyti fjármagnaðir af Landsbankanum og bankinn var þar að auki meðal hluthafa í félaginu. En þegar bankinn og bankakerfið hrundi komu tvö til þrjú gríðarlega erfið ár í framhaldinu. Við færðumst þá yfir í Nýja Landsbankann með okkar fjármögnun. Það var samt alls ekki sjálfgefið því Nýi Landsbankinn var stofnaður utan um innlenda starfsemi Landsbankans en við vorum með alla okkar starfsemi utan Íslands.“

Guðmundur segir að þessi þróun mála hafi orðið félaginu til happs því starfsmenn nýja bankans, sem áður höfðu verið hjá þeim gamla, héldu uppi góðum samskiptum við Strax og náðu með nánu og góðu samstarfi við fyrirtækið að leysa úr ýmsum flækjum.

En þið hafið samt sem áður ákveðið að vera áfram í bankaþjónustu á Íslandi, þrátt fyrir að vera alfarið erlendis með ykkar starfsemi?

„Já, eins og menn vita þá var tiltölulega auðvelt að fá fjármagn á Íslandi fram að hruni og því var nærtækara að nota íslenska bankaþjónustu á þeim árum. Auk þess hafði Landsbankinn komið að yfirtöku okkar á þýsku félagi árið 2005 og fjármagnað það fyrir okkur. Við héldum því einfaldlega áfram að vera hjá Landsbankanum eftir hrun. Árið 2010 endurfjármögnuðum við hins vegar fyrirtækið í gegnum sænska fjármálastofnun, eftir að hafa nýtt þessi erfiðu ár eftir hrun í víðtæka tiltekt hjá okkur.“

Bankahrunið neyddi Strax einnig til að endurhugsa reksturinn frá a-ö. Eitt af því var aukin áhersla á þeirra eigin vörumerki. „Við kynntum til sögunnar fyrsta eigið vörumerki okkar árið 2010. Við settum okkur þá markmið um að innan fimm ára yrðu okkar eigin vörumerki 50% af heildarveltu en hin 50% veltunnar kæmu frá vörum sem við dreifðum fyrir aðra. Framlegðin af sölu á eigin vörum er alla jafna tvöföld á við hinar og því mikilvægt að auka vægi eigin vara,“ útskýrir Guðmundur.

Sjá viðtalið í heild sinni í ViðskiptaMogganum í dag. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK