Jón Ásgeir býður sig fram í stjórn Haga

Jón Ásgeir Jóhannesson.
Jón Ásgeir Jóhannesson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jón Ásgeir Jóhannesson er meðal þeirra sem bjóða sig fram í stjórn Haga, en hluthafafundur hefur verið boðaður á föstudaginn eftir viku. Sjö eru í framboði, en aðeins fimm skipa stjórnina. Tilnefningarnefnd leggur ekki til að Jón Ásgeir verði kjörinn.

365 miðlar ehf., félag í eigu Ingibjargar Pálmadóttur, eiginkonu Jóns Ásgeirs, keypti í október fyrir 1,8 milljarð í Högum og á í dag 2,76% hlut í félaginu.

Jón Ásgeir stofnaði Bónus matvælaverslunina ásamt föður sínum Jóhannesi Jónssyni árið 1989, en verslunin var grunnurinn að verslunarveli Haga og fjárfestingafélagsins Baugs sem var í eigu Jóns Ásgeirs og fjölskyldu hans. Eftir hrunið 2008 missti fjölskyldan verslunarveldið og voru Hagar síðar skráðir á markað. 

Ingibjörg á sem fyrr segir félagið 365 miðla, en það seldi Stöð 2, Vísi og fleiri fjölmiðla úr fyrirtækinu og eignaðist í kjölfarið hlut í Fjarskiptum (síðar Sýn). Seldi 365 hlut sinn í félaginu á síðasta ári og keypti á móti í Högum.

Samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar eru þau Kristín Friðgeirsdóttir stjórnarformaður og Sigurður Arnar Sigurðsson varaformaður á leið úr stjórn, en þau gefa ekki kost á sér.

Eftirtaldir bjóða sig hins vegar fram:

Davíð Harðarson, fjármálastjóri Nordic Visitor
Eiríkur S. Jóhannsson, forstjóri Slippsins Akureyri
Erna Gísladóttir, forstjóri og eigandi BL ehf.
Jón Ásgeir Jóhannesson, fjárfestir
Katrín Olga Jóhannesdóttir, formaður Viðskiptaráðs Íslands
Kristján Óli Níels Sigmundsson, bifreiðastjóri og fjárfestir
Stefán Árni Auðólfsson, lögmaður hjá LMB lögmönnum slf.

Samkvæmt samþykktum félagsins skal stjórn skipuð fimm mönnum. Í tilkynningunni kemur fram að tilnefningarnefnd hafi farið yfir þau framboð sem bárust innan tiltekins frests og leggur hún til að Davíð Harðarson, Eiríkur S. Jóhannsson, Erna Gísladóttir, Katrín Olga Jóhannesdóttir og Stefán Árni Auðólfsson verði kosin í stjórn félagsins. 

mbl.is

Myntbreyta

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  CHF
  JPY

Erlendar viðskiptafréttir