Leið oft eins og geimveru

Hrund Gunnsteinsdóttir, verðandi framkvæmdastjóri Festu.
Hrund Gunnsteinsdóttir, verðandi framkvæmdastjóri Festu. Kristinn Magnússon

„Tækifærin felast í því að endurhugsa samfélagslega ábyrgð frá grunni. Þetta kemur inn á hringrásarhagkerfið, vinnustaðinn og stjórnarhætti og snýst um að huga að þessum hlutum strax frá upphafi hugmyndavinnu og framleiðsluferlisins. Þannig á að hugsa. Þannig á að vinna.“

Þetta segir Hrund Gunnsteinsdóttir sem tekur um mánaðamótin við starfi framkvæmdastóra Festu – miðstöðvar um samfélagslega ábyrgð en hún hefur látið þau mál sig varða um langt skeið. 

„Við erum lítið samfélag en þrátt fyrir smæðina benda rannsóknir til þess að töluvert vanti upp á samstarf milli stofnana og geira og við því þarf að bregðast. Sum fyrirtæki og stofnanir eru komin lengra en önnur í þessu ferli og Festa hefur ríku hlutverki að gegna þegar kemur að því að brúa bilið þarna á milli og auðvelda tengingar milli hins opinbera og einkageirans. Festa er ensím fyrir atvinnulífið sem hefur það hlutverk að hjálpa fólki, fyrirtækjum og stofnunum að tala og vinna saman og kortleggja leiðir til að mæla samfélagslega ábyrgð og árangur þar að lútandi. Það er líka mikilvægt að hafa í huga að Festa mætir fyrirtækjum þar sem þau eru stödd, hvort sem þau eru komin langt eða skammt á veg. Það þarf ekki að þyrma yfir neinn. Við tökum þetta skref fyrir skref. Maður borðar ekki fíl í heilu lagi, heldur með því að taka einn bita í einu.“

– Maður hefur á tilfinningunni að þessir hlutir séu að breytast hratt. Hefði ekki verið mun erfiðara að kynna þessa nálgun fyrir tíu árum?

„Miklu erfiðara. Ég var dálkahöfundur á Viðskiptablaðinu um miðjan síðasta áratug og skrifaði um alþjóðamál, alþjóðlega hringrás fólks og viðskipta og hvernig þetta tengist, samfélagslega ábyrgð og fleira. Ég man eftir að hafa gúglað „samfélagslega ábyrgð“ á íslensku og fékk engar niðurstöður. Þetta var einfaldlega ekki til á netinu alla vega. Á svipuðum tíma hringdi ég í fjárfestingarsjóð á Íslandi í tengslum við greinaskrif og spurði hvort menn væru farnir að huga að því að fjárfesta í samfélagslega ábyrgum fyrirtækjum og það var nánast hlegið upp í opið geðið á mér: „Æ, kúturinn minn. Þú ert svo mikið hugsjónaprik!“ Þannig hugsuðu einhverjir á þeim tíma; voru ekki að velta þessum málum fyrir sér. Nú er öldin önnur. Sem betur fer.“

– Þegar þú varst að hefja þessa vegferð, hugsaðirðu þá með þér: Jæja, þetta verður léttara verk eftir einhver ár?

„Já og nei. Ég hef oft misst móðinn, eins og flestir ef ekki allir sem eru svona þenkjandi. Mér leið oft eins og geimveru. Þetta hefur breyst mjög hratt, það sem þótti léttvægt fyrir fimm árum er það alls ekki í dag. Ég hélt fyrirlestur á Íslandi um það árið 2011 að kerfin okkar væru orðin úrelt og of stirð og stæðust ekki kröfur samtímans. Ekki tóku allir vel í það en í dag eru flestir sammála um þetta. Það er heldur ekki langt síðan fólk hváði þegar orð eins og nýsköpun bar á góma. Við erum smám saman að læra þessi orð og skilja fyrir hvað þau standa; ekki er til dæmis langt síðan við fórum að gera greinarmun á nýsköpun og frumkvöðlastarfi. Þetta hverfist heldur ekki eingöngu um tækni, eins og sumir virðast halda og nýsköpun og nýhugsun á við um opinbera geirann eins og einkageirann.“

Ítarlega er rætt við Hrund í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Myntbreyta

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  CHF
  JPY

Erlendar viðskiptafréttir