Tveir stjórnendur Sýnar hætta

Höfuðstöðvar Sýnar hf. við Suðurlandsbraut. Félagið tilkynnti um skipulagsbreytingar síðdegis …
Höfuðstöðvar Sýnar hf. við Suðurlandsbraut. Félagið tilkynnti um skipulagsbreytingar síðdegis í dag. mbl.is/Hari

Skipulagsbreytingar hafa verið gerðar hjá Sýn hf., sem ætlað er að efla sölu og þjónustu og styrkja rekstur félagsins til framtíðar litið. Breytingarnar eru sagðar liður í að einfalda reksturinn og stytta boðleiðir innan fyrirtækisins. Tveir stjórnendur láta af störfum í kjölfar breytinganna.

Þetta kemur fram í tilkynningu Sýnar til Kauphallarinnar. Þau Ragnheiður Hauksdóttir, sem hefur leitt einstaklingssvið Sýnar, og Björn Víglundsson, sem leitt hefur Miðla, hafa bæði gert samkomulag um starfslok samfara þessum skipulagsbreytingum.

Skipulagsbreytingarnar felast í því að einstaklingssvið og fyrirtækjasvið verða rekin sem tvö sjálfstæð svið undir sölu og þjónustu, sem heyra mun beint undir forstjóra. Einingar Miðla munu einnig heyra beint undir forstjóra eftir þessar breytingar, en munu að öðru leyti ekki breytast, samkvæmt fréttatilkynningu.

Björn Víglundsson, sem leitt hefur miðla Sýnar, lætur af störfum …
Björn Víglundsson, sem leitt hefur miðla Sýnar, lætur af störfum samfara þessum skipulagsbreytingum. Ljósmynd/Aðsend

Elmar Hallgríms Hallgrímsson hefur verið ráðinn til að leiða sölu og þjónustu einstaklinga, og Trausti Guðmundsson mun leiða fyrirtækjahlutann. Elmar kemur nýr til Sýnar, en hann hefur undanfarið sinnt sérverkefnum fyrir Hagvang en var áður framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs hjá 365 miðlum ehf.

Elmar var um árabil lektor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og annast nú m.a. kennslu við MBA-nám og lagadeild skólans. Hann er einnig þjálfari hjá Dale Carnegie og er með LL.M-gráðu frá University of Pennsylvania í Bandaríkjunum og embættipróf í lögfræði frá Háskóla Íslands. Þá hefur hann lokið meistaranámi í fjármálum fyrirtækja og í viðskiptasiðfræði frá Háskóla Íslands, auk þess að hafa lokið prófi í verðbréfasviðskiptum og hafa leyfi til að starfa sem héraðsdómslögmaður.

Elmar Hallgríms Hallgrímsson hefur verið ráðinn til Sýnar hf.
Elmar Hallgríms Hallgrímsson hefur verið ráðinn til Sýnar hf. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Þorvarður Sveinsson sem leitt hefur fyrirtækjasvið tekur við nýju hlutverki rekstrarstjóra Sýnar. Hann mun bera ábyrgð á rekstrarmálum þvert á fyrirtækið með það markmið að ná fram aukinni skilvirkni og hagkvæmni í rekstri. Þessi breyting endurspeglar rekstraráherslur félagsins og viðbrögð við áskorunum á fjarskipta- og fjölmiðlamarkaði, samkvæmt því sem fram kemur í fréttatilkynningu.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK