Ingólfur ráðinn til Infront

Ingólfur Hannesson hefur verið ráðinn til starfa hjá Infront.
Ingólfur Hannesson hefur verið ráðinn til starfa hjá Infront.

Ingólfur Hannesson, fyrrverandi deildarstjóri íþróttadeildar RÚV, hefur verið ráðinn til starfa hjá alþjóðlega fjölmiðla- og markaðssetningarfyrirtækinu Infront, sem er með höfuðstöðvar sínar í Sviss.

Infront sér meðal annars um markaðssetningu á sýningarrétti ýmissa íþróttaviðburða og er Ingólfi ætlað að einbeita sér sérstaklega að vetraríþróttum í starfi sínu, samkvæmt fréttatilkynningu á vef fyrirtækisins.

Ingólfur hefur starfað fyrir Samband evrópskra sjónvarpsstöðva (EBU) í sextán ár og haft búsetu í Sviss, en þar hefur hann haft yfirumsjón með sýningarréttarmálum í vetrar- og innanhússíþróttum, sem framkvæmdastjóri íþróttasviðs EBU.

Í fréttatilkynningu er haft eftir Bruno Marty, varaforseta vetraríþróttasviðs Infront, að það sé fengur fyrir fyrirtækið að fá Ingólf til starfa, þar sem hann sé á meðal reyndustu sérfræðinga á sviði sýningarréttar vetraríþrótta.

Þá er haft eftir Ingólfi að í heimi íþrótta og stafrænna miðla þurfi sérsambönd og aðrir rétthafar sýningarréttar á traustum samstarfsaðilum að halda sem geti veitt ýmsa þjónustu sem nái yfir alla virðiskeðjuna. Infront er slíkur aðili að sögn Ingólfs, sem segist hlakka til að taka þátt í framtíðarvelgengni fyrirtækisins.

Hjá Infront starfa yfir 1.000 manns á ýmsum sviðum og fyrirtækið er með skrifstofur í 14 löndum.

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir