Fjölskyldur Samherja-frænda tengjast á ný

Leiðir náfrændanna Þorsteins Más (u.t.v.) og Þorsteins (u.t.h) á sviði ...
Leiðir náfrændanna Þorsteins Más (u.t.v.) og Þorsteins (u.t.h) á sviði viðskipta skildi fyrir 20 árum. Nú eru synir þeirra, Baldvin (n.t.v.) og Vilhelm Már (n.t.h.), stjórnarformaður og forstjóri Eimskips. Samsett mynd

Ráðning Vilhelms Más Þorsteinssonar í starf forstjóra Eimskips, sem tilkynnt var um í gær, þýðir að fjölskyldur náfrændanna Þorsteins Más Baldvinssonar hjá Samherja og Þorsteins Vilhelmssonar, athafnamanns og föður nýs forstjóra, tengjast á ný á viðskiptasviðinu, en leiðir þeirra skildi árið 1999.

Baldvin Þorsteinsson stjórnarformaður Eimskips er sonur Þorsteins Más og nú hefur frændi hans, Vilhelm Már, verið ráðinn í forstjórastöðu fyrirtækisins. Í fréttatilkynningu vegna ráðningarinnar í gær var haft eftir Baldvini að rétt væri að taka fram að afar þeirra Vilhelms hefðu verið bræður og að síðustu 20 árin hefðu fjölskyldur þeirra ekki tengst hagsmunaböndum.

Feður þeirra, auk Kristjáns Vilhelmssonar, voru þrír aðaleigendur útgerðarfélagsins Samherja frá 1983 til ársins 1999, er gerður var starfslokasamningur við Þorstein. Þau starfslok voru gerð í ósætti, en samstarfsörðugleikar höfðu verið á milli þeirra nafna og frænda, Þorsteins og Þorsteins Más, eins og Þorsteinn lýsti í viðtali við Ak-vikublað árið 2001.

„Ég get ekki sagt annað en mér hafi fundist ég fá rýting í bakið," var meðal annars haft eftir Þorsteini í því viðtali, en frásögn af því var birt í Morgunblaðinu á sínum tíma. Hann sagði yfirgang Þorsteins Más hafa verið ástæðu þess að hann hætti hjá Samherja árið 1999, en hann seldi hlut sinn í fyrirtækinu árið 2000 fyrir þrjá milljarða króna.

Frændurnir Þorsteinn og Þorsteinn Már hafa verið umsvifamiklir í viðskiptalífinu síðan, hvor í sínu lagi. Þorsteinn Már hefur sem kunnugt er leitt útgerðarfélagið Samherja, sem hefur vaxið mjög og dafnað og á hlut í fjölda annarra fyrirtækja í sjávarútvegi, hér á landi og erlendis. Í fyrra tók Samherji svo skref inn á nýjan markað, er systurfélagið Samherji Holding hf. keypti 25,3% hlut í Eimskip.

Þorsteinn Vilhelmsson hefur, frá því að hann sagði skilið við Samherja fyrir tæpum 20 árum, verið virkur fjárfestir. Hann var meðal annars leiðandi innan fjárfestingafélagsins Atorku, sem var í mörg ár eitt umsvifamesta fjárfestingafélag landsins.

Atorka átti meðal annars Jarðboranir fram til ársins 2007, en félagið fór illa út úr efnahagshruninu árið 2008, fór í greiðslustöðvun og var að endingu tekið yfir af kröfuhöfum, en stærstu kröfuhafar Atorku voru skilanefnd Glitnis og skilanefnd Landsbankans.

Samherji kom síðar að Jarðborunum, en Kaldbakur, fjárfestingafélag Samherja, keypti hlut í fyrirtækinu árið 2012 og var Baldvin Þorsteinsson ráðinn forstjóri þess félags árið 2013. Hann stýrði fyrirtækinu til 2015.

Þegar Samherji keypti fjórðungshlutinn í Eimskip síðasta haust, og varð með því stærsti einstaki hluthafi félagsins, var Baldvin fljótlega skipaður stjórnarformaður félagsins. Í nóvember var það tilkynnt að Gylfi Sigfússon, fyrrverandi forstjóri, myndi halda til annarra starfa innan fyrirtækisins og taka við stjórn daglegs reksturs Eimskips í Bandaríkjunum og Kanada. Auglýst var eftir nýjum forstjóra í byrjun desember.

Töluverðar vangaveltur voru um hver myndi taka við starfinu og hafði nafn Baldvins sjálfs verið nefnt í fjölmiðlum í því samhengi, auk annarra. Niðurstaðan er þó sú, eins og kunngjört var í gær, að nú tengjast fjölskyldur þeirra Þorsteins Más og Þorsteins aftur hagsmunaböndum, með ráðningu Vilhelms Más í stöðu forstjóra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Myntbreyta

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  CHF
  JPY

Erlendar viðskiptafréttir