Innleiðir ný grunnkerfi hjá Arion banka

Frá vinstri: Riaan Dreyer, Jón Gunnar Björnsson, Rakel Óttarsdóttir og …
Frá vinstri: Riaan Dreyer, Jón Gunnar Björnsson, Rakel Óttarsdóttir og Höskuldur H. Ólafsson frá Arion banka, Friðrik Þór Snorrason og Jón Helgi Einarsson frá RB og Iða Brá Benediktsdóttir frá Arion banka. Ljósmynd/Aðsend

Reiknistofa bankanna og Arion banki skrifuðu í dag undir samning um innleiðingu á nýjum grunnkerfum bankans. Um er að ræða kerfi frá Sopra Banking Software og lausnir frá RB sem reknar eru sameiginlega fyrir íslenska bankakerfið. 

Sopra, sem er eitt stærsta hugbúnaðarfyrirtæki Evrópu með yfir 40 ára reynslu, er samstarfsaðili yfir 800 fyrirtækja í 70 löndum og hefur nú þegar tekið þátt í tveimur innleiðingum á Íslandi, að því er Arion banki greinir frá.

Um er að ræða  verkefni þar sem 40 ára gömlum sérhönnuðum innlána- og greiðslukerfum RB verður skipt út fyrir staðlaða alþjóðlega hugbúnaðarlausn. Markmið endurnýjunarinnar er að auka hagræði og draga úr kostnaði við rekstur upplýsingakerfa bankans og styðja við frekari vöruþróun. Kerfin munu taka mið af breytingum á evrópsku regluverki og þannig einfalda bankanum að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru að sögn Arion.

Þá kemur fram, að verkefnið sé mjög umfangsmikið og komi á annað hundrað starfsmenn að því frá Arion banka, RB og Sopra. Gert er ráð fyrir að gangsetning verði á haustmánuðum 2020.

Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka, segir í tilkynningu, að grunnkerfi bankans skipti miklu fyrir alla starfsemi og þjónustu bankans. Rekstur þeirra sé jafnframt stór kostnaðarliður í starfsemi bankans og með því að skipta út eldri kerfum fyrir nýrri sveigjanlegri kerfi mun fyrirtækið ná fram auknu hagræði. 

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK