Kostnaður af málaferlum 47 milljónir

Kostnaðurinn hefur numið 47 milljónum króna.
Kostnaðurinn hefur numið 47 milljónum króna. mbl.is/Eggert

Kostnaður ríkisins af málaferlum vegna synjana á heimildum til innflutnings á fersku kjöti fyrir innlendum og alþjóðlegum dómstólum hefur numið um 47 milljónum króna, að málskostnaði og skaðabótum meðtöldum.

Þetta kemur farm í svari sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Jóni Steindóri Valdimarssyni, þingmanni Viðreisnar.

Tvö mál hafa verið rekin vegna ákvæða íslenskra laga og reglna um innflutning á fersku kjöti. Í því fyrra hóf Eftirlitsstofnun EFTA athugun árið 2012 á samræmi íslenskra laga við skuldbindingar ríkisins samkvæmt EES-samningnum í kjölfar kvörtunar Samtaka verslunar og þjónustu. Málið var sent til EFTA-dómstólsins 2017 og féll dómur 14. nóvember það ár. Kostnaður íslenska ríkisins vegna málsins í heild var 35.974.169 krónur, að því er kemur fram í svarinu.

Í seinna málinu stefndi fyrirtækið Ferskar kjötvörur ehf. íslenska ríkinu 25. apríl 2014 til greiðslu skaðabóta vegna synjunar á innflutningi ófrysts kjöts. Málinu lauk með dómi Hæstaréttar Íslands 11. október 2018. Kostnaður íslenska ríkisins í þessu máli, að skaðabótum meðtöldum, var 11.059.832 krónur.

Jón Steindór Valdimarsson.
Jón Steindór Valdimarsson. mbl.is/Eggert

Í svarinu kemur einnig fram að Matvælastofnun hefur hafnað einni umsókn um innflutning kjöts eftir að dómur Hæstaréttar féll 11. október 2018. Sú sending innihélt 226,5 kg af ófrystu nautakjöti að verðmæti 487.055 krónur.

Þar segir einnig að frá því að dómur EFTA-dómstólsins féll 14. nóvember 2017 hafi verið unnið að viðbrögðum til að íslenska ríkið uppfylli skuldbindingar sínar samkvæmd EES-samningnum. Þörf er á breytingu laga um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim og reglugerð um varnir gegn því að dýrasjúkdómar og sýktar afurðir berist til landsins.

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra við Stjórnarráðið.
Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra við Stjórnarráðið. mbl.is/​Hari

Samhliða undirbúningi á frumvarpi til breytinga á lögum hefur verið unnið að aðgerðum til að koma í veg fyrir að breytt fyrirkomulag innflutnings leiði af sér áhættu gagnvart heilsu manna og dýra. Ráðuneytið og Matvælastofnun hafa unnið að þessum undirbúningi frá því dómur féll, meðal annars var sótt um viðbótartryggingu varðandi salmolennu til Eftirlitsstofnunar EFTA 4. júlí 2018 og var hún samþykkt í síðustu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK