Málskotsbeiðni Skúla í Subway hafnað

Hæstiréttur Íslands hafnaði málskotsbeiðni Skúla í Subway.
Hæstiréttur Íslands hafnaði málskotsbeiðni Skúla í Subway. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Hæstiréttur hefur hafnað málskotsbeiðni Skúla Gunnars Sigfússonar, sem yfirleitt er kenndur við Subway. Landsréttur dæmdi í desember sl. Skúla til að greiða þrotabúi EK1923 ehf. um 2,3 milljónir króna.

Landsréttur sneri við dómi Héraðsdóms Suðurlands og dæmdi Skúla Gunnar skaðabótaskyldan vegna greiðslu sem EK1923 innti af hendi til Evron Foods Ltd. Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir að Skúli hefði hvorki verið framkvæmdastjóri EK1923 né í stjórn félagsins þegar greiðslan var innt af hendi hefði hann með beinum eða óbeinum hætti gefið fyrirmæli um að skuldin yrði greidd og olli hann þannig EK1923 tjóni með saknæmum og ólögmætum hætti.

Skúli byggði kröfu sína á að málið yrði tekið fyrir í Hæstarétti á að dómur Landsréttar hafi verulegt almennt gildi. Brýnt sé að eyða óvissu um við hvaða aðstæður og á hvaða lagagrundvelli einstaklingur sem ekki er framkvæmdastjóri, stjórnarmaður eða hluthafi í félagi geti borið skaðabótaábyrgð vegna athafna þess.

Í ákvörðun Hæstaréttar um að hafna málskotsbeiðninni segir að hvorki sé unnt að líta svo á að dómur Landsréttar hafi verulegt almennt gildi umfram dómsúrlausnir sem áður hafi gengið né að það varði mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda. Þá verði ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til.

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir