Kaupmáttur launa lækkaði í desember

Samkvæmt nýrri Hagsjá Landsbankans er staða kaupmáttar góð miðað við ...
Samkvæmt nýrri Hagsjá Landsbankans er staða kaupmáttar góð miðað við lok samningatímabils á almennum markaði. mbl.is/​Hari

Kaupmáttur launa lækkaði um 0,7% í desember og er þetta í fyrsta skipti sem kaupmáttur lækkar að einhverju ráði frá upphafi ársins 2015. Kaupmátturinn var engu að síður 2,2% meiri nú í desember en í desember árið áður. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans.

„Frá áramótum 2014/2015 hefur kaupmáttur launavísitölu aukist um rúm 23%, eða tæplega 7% á ári. Það er verulega mikil aukning, bæði sögulega séð og í samanburði við önnur lönd,“ segir í Hagsjánni.

Launavísitalan hélst nær óbreytt milli nóvember og desember, samkvæmt tölum Hagstofunnar og er breytingin á ársgrundvelli 6% sem er svipað og verið hefur síðustu mánuði. Þá var hækkunartaktur launa á ársgrundvelli nokkuð stöðugur í rímlega 7% í um það bil ár.

Þar sem desember var síðasti mánuður þriggja ára samningstímabils á almenna markaðnum kemur ekki á óvart að tölur haldist óbreyttar, að því er segir í Hagsjánni.

Þar segir jafnframt að staða kaupmáttar sé góð miðað við lok samningatímabils. „Þessi staða er allt önnur nú, kaupmáttur hefur fram til þessa verið nokkuð stöðugur sé miðað við launavísitölu og almennt má segja að þau markmið sem sett voru í síðustu kjarasamningum hafi náðst nokkuð vel.“

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir