Atvinnulausum fjölgaði um 384 milli ára

Atvinnuleysi jókst um 0,2 prósentustig milli ára.
Atvinnuleysi jókst um 0,2 prósentustig milli ára. mbl.is/Golli

Fjöldi atvinnulausra á síðasta ári var 4.283 að meðaltali, eða 2,4% af áætluðum mannafla á vinnumarkaði. Árið á undan voru að meðaltali 3.899 manns atvinnulausir, eða 2,2%. Fjölgaði atvinnulausum því um 384 milli ára.

Atvinnuleysi karla jókst um 0,2 prósentustig en atvinnuleysi kvenna breyttist ekki milli ára og var atvinnuleysi karla 2,2% að meðaltali árið 2018 en atvinnuleysi kvenna breyttist ekki og var 2,5%. Þetta er meðal þess sem kemur fram í samantekt Vinnumálastofnunar vegna síðasta árs.

Atvinnuleysi jókst um 0,3% á höfuðborgarsvæðinu og fjölgaði atvinnulausum þar um 389 á árinu. Á landsbyggðinni minnkaði atvinnuleysi hins vegar um 0,1% og fækkaði um 6 á atvinnuleysisskrá. Meðalatvinnuleysi var mest á Suðurnesjum 3,2% og á höfuðborgarsvæðinu 2,5% árið 2018 en minnst á Norðurlandi vestra, 1,2%.

Atvinnulausum 18-24 ára fjölgar að meðaltali um 56 á árinu 2018 og voru að meðaltali 554 atvinnulausir í þessum aldurshópi. Hlutfall atvinnulausra 18-24 ára af öllum atvinnulausum var 11,9% árið 2018 eða sama og árið 2017.

Þeir sem hafa verið atvinnulausir lengur en 12 mánuði á árinu 2018 voru að meðaltali 922 en 850 á árinu 2017. Alls voru 20% allra atvinnulausra lengur en 12 mánuði atvinnulausir á árinu 2018 eða svipað og árið 2017. Fjöldi þeirra sem höfðu verið lengur en 6 mánuði á atvinnuleysisskrá á árinu 2018 var 1.964 eða um 42% allra á atvinnuleysisskrá en 1.723 og um 41% árið 2017.

Á árinu 2018 bárust Vinnumálastofnun 15 tilkynningar um hópuppsagnir, þar sem 864 manns var sagt upp störfum. Flestir hafa misst vinnuna í flutningum, 393 eða um 45% allra hópuppsagna, í iðnaðarframleiðslu 266, eða um 31% og 151 í fiskvinnslu eða um 17%.   

Alls fengu 547 einstaklingar greitt úr Ábyrgðarsjóði launa á árinu 2018 samanborið við 252 á árinu 2017. Greiddar voru kröfur launamanna og lífeyrissjóða vegna alls 199 þrotabúa á árinu 2018 en 166 þrotabúa árið 2017.

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir