8,6 milljarða hagnaður Össurar

Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar.
Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hagnaður Össurar nam á síðasta ári 80 milljónum Bandaríkjadala (8,6 milljörðum íslenskra króna) eða 13% af sölu og jókst um 38% frá sama tímabili í fyrra. Endurmat á minnihlutaeignum hafði jákvæð áhrif á hagnað, segir í tilkynningu.

Heildarlaun forstjóra námu á síðasta ári 2.062 Bandaríkjadölum eða 248 milljónum króna. Það jafngildir rúmum 20 milljónum króna á mánuði. Inni í því eru bæði laun, hlutabréf og aðrar þóknanir. 

Hér er hægt að sjá ársreikning félagsins 

Sala ársins 2018 nam 613 milljónum Bandaríkjadala (66 milljörðum íslenskra króna). Vöxtur í staðbundinni mynt nam 7% á árinu og innri vöxtur var 5%.

Innri vöxtur í stoðtækjum var 7% og 2% í spelkum og stuðningsvörum. Söluvöxtur var einna helst drifinn áfram af hátæknivörum félagsins.

EBITDA fyrir einskiptisliði ársins 2018 nam 115 milljónum Bandaríkjadala (12 milljörðum íslenskra króna) eða 19% af sölu. Aukningu í EBITDA-framlegð má rekja til aukinnar sölu á hátæknivörum, stærðarhagkvæmni, verkefna um aukna hagkvæmni í rekstri og gjaldeyrishreyfinga.

Árið 2017 tilkynnti Össur um verkefni til að auka hagkvæmni í rekstri á sviði framleiðslu, dreifingar og innkaupa með áætlaðan sparnað upp á 10 milljónir Bandaríkjadala (1,1 milljarð íslenskra króna) við árslok 2020. Ávinningur af verkefninu hafði jákvæð áhrif á rekstrarniðurstöðu ársins og ráðist hefur verið í ýmsar fjárfestingar til að ná markmiðum um aukna hagkvæmni í rekstri á þessu og næsta ári.

Össur keypti fjögur fyrirtæki á síðasta ári. Þrjú fyrirtæki voru keypt á fjórða ársfjórðungi en tvö þeirra höfðu engin áhrif á rekstrarafkomu á fjórða ársfjórðungi. Sameiginleg ársvelta fyrirtækjanna nemur um 70 milljónum Bandaríkjadala (7,5 milljörðum íslenskra króna).

Á aðalfundi 2019 mun stjórn Össurar leggja til að félagið greiði 14 danska aura í arð á hlut fyrir árið 2018, sem er 8% aukning frá því í fyrra er félagið greiddi 13 danska aura í arð á hlut. Stjórnin mun einnig leggja til að hlutafé félagsins verði lækkað um 5.430.259 kr. sem samsvarar þeim 5.430.259 eigin hlutum sem Össur keypti á árinu 2018.

Fjárhagsáætlun félagsins fyrir árið 2019 er 4-5% innri vöxtur, um 23% EBITDA-framlegð að teknu tilliti til einskiptisliða, 4-5% fjárfestingarhlutfall og virkt skattahlutfall á bilinu 23-24%, samkvæmt fréttatilkynningu.

Jón Sigurðsson forstjóri segir í tilkynningu: „Allir liðir fjárhagsáætlunarinnar stóðust í ár og söluvöxtur í stoðtækjum var yfir áætluðum markaðsvexti þriðja árið í röð. Söluvöxtinn má aðallega rekja til sölu á hátæknivörum sem gengur vel í báðum vöruflokkum. Vöxtur í löndum sem teljast til nýmarkaðsríkja var einnig góður. Rekstrarhagnaður félagsins á árinu jókst með aukinni sölu á hátæknivörum og ávinningi af verkefnum ætluðum til að auka hagkvæmni í rekstri.“

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK