Hálfur milljarður í fjárfestingasjóð

Bala Kamallakharan, framkvæmdastjóri Iceland Venture Studio, Freyr Ketilsson, stjórnarformaður Iceland …
Bala Kamallakharan, framkvæmdastjóri Iceland Venture Studio, Freyr Ketilsson, stjórnarformaður Iceland Venture Studio, Sigurbjörg Ásta Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Retina Risk, dr. Einar Stefánsson, meðstofnandi Retina Risk, og Ægir Þór Steinarsson, vörustjóri Retina Risk.

Nýtt fjárfestingafyrirtæki, Iceland Venture Studio, hefur stofnað 500 milljóna króna fjárfestingasjóð með það að markmiði að hjálpa íslenskum nýsköpunarfyrirtækjum á sviði tækni með fjármagn, ráðgjöf og tengingar.

Fyrirtækið hefur nú þegar safnað um 137 milljónum króna og er markmiðið að sjóðurinn verði milljarðasjóður innan þriggja ára. Iceland Venture Studio mun ekki einungis fjárfesta í íslenskri nýsköpun heldur mun fyrirtækið einnig skoða fjárfestingatækifæri í nýsköpunarfyrirtækjum erlendis, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

Stofnendur fjárfestingafyrirtækisins, Bala Kamallakharan og Freyr Ketilsson, eiga einnig sprotafyrirtækið Dattaca Labs og mun Bala verða framkvæmdastjóri hins nýja fyrirtækis og Freyr verður stjórnarformaður. Bala er einnig stofnandi og framkvæmdastjóri Startup Iceland-ráðstefnunnar sem hefur hjálpað frumkvöðlum og nýsköpunarfyrirtækjum við fjármögnun í gegnum árin og hefur hann því haldgóða reynslu á sviði nýsköpunar á Íslandi.

„Iceland Venture Studio mun veita nýsköpunarfyrirtækjum á sviði tækni og vísinda stuðning og hjálpa þeim að komast á næsta stig. Markmiðið verður að hjálpa þeim að leysa þau vandamál sem oft verða til á fyrstu stigum stofnunar, svo sem að brúa bilið milli lausnarinnar og óska neytenda, aðstoða við tæknilega uppsetningu og síðast en ekki síst að tryggja að rétta fólkið sé ráðið á hverjum tíma en þetta hefur reynst mörgum nýsköpunarfyrirtækjum fjötur um fót í gegnum tíðina. Þekking okkar stofnendanna og reynsla mun því meðal annars hjálpa þeim fyrir[t]ækjum sem við fjárfestum í að lágmarka þessa áhættu,“ segir Bala Kamallakhran, framkvæmdastjóri Iceland Venture Studio, í fréttatilkynningu.

„Iceland Venture Studio mun vinna náið með frumkvöðlum og nýsköpunarfyrirtækjum við að ná settu marki. Iceland Venture Studio verður ekki hlutlaus fjárfestir, heldur mjög virkur þátttakandi þar sem stofnendurnir vinna beint með teyminu við að leysa verkefnin sem liggja fyrir,“ segir Freyr Ketilsson, stjórnarformaður Iceland Venture Studio, í fréttatilkynningu.

Fjárfest í Retina Risk

Eitt þeirra nýsköpunarfyrirtækja sem Iceland Venture Studio hefur fjárfest í er Retina Risk sem stofnað var af Einari Stefánssyni augnlækni og prófessor við HÍ, Örnu Guðmundsdóttur lyflækni og Thor Aspelund, faraldsfræðingi og prófessor við HÍ.

Fyrirtækið hefur sett á markað smáforritið Retina Risk sem er áhættureiknir sem gerir fólki með sykursýki kleift að fylgjast með einstaklingsbundinni áhættu á að þróa með sér augnsjúkdóma sem leitt geta til sjónskerðingar og jafnvel blindu. 

Smáforritið hefur að geyma ítarlegar leiðbeiningar og gagnlegar upplýsingar um sykursýki, sykursýkisaugnsjúkdóma sem og leiðbeiningar um sjálfsumönnun. Retina Risk gerir þannig fólki með sykursýki betur kleift að skilja ástand sitt, auka heilsulæsi sitt og verða virkir þátttakendur í eigin heilsugæslu.

„Við fengum tækifæri til að vinna með fjölmörgum fjárfestum en á endanum varð Iceland Venture Studio fyrir valinu, þá sérstaklega vegna góðrar blöndu af fjármagni, tengingum og vilja þeirra til að koma til móts við okkar þarfir,“ segir Einar Stefánsson, prófessor og meðstofnandi Retina Risk, í tilkynningu. „Við erum spennt fyrir þessu samstarfi og vitum að það mun verða til þess að Retina Risk nái að vaxa til framtíðar og hjálpa þeim sjúklingum sem lausnin leitast við að aðstoða.“

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK