Leggja til 9,9 milljarða arðgreiðslu

Hagnaður Landsbankans í fyrra nam 19,3 milljörðum króna eftir skatta.
Hagnaður Landsbankans í fyrra nam 19,3 milljörðum króna eftir skatta. mbl.is/Halldór Kolbeins

Hagnaður Landsbankans hf. á árinu 2018 nam 19,3 milljörðum króna eftir skatta, samanborið við 19,8 milljarða króna á árinu 2017. Arðsemi eigin fjár bankans var 8,2% eftir skatta í fyrra og þar með sama arðsemi og árið 2017. Lagt verður til við aðalfund bankans að greiddur verði 9,9 milljarða króna arður til hluthafa vegna ársins 2018, að því er fram kemur í fréttatilkynningu. 

Hreinar vaxtatekjur Landsbankans jukust um rúma 4,5 milljarða króna milli ára og námu 40,8 milljörðum króna í fyrra. Hreinar þjónustutekjur námu 8,2 milljörðum króna og stóðu nokkurn vegin í stað frá fyrra ári. Aðrar rekstrartekjur námu 3,6 milljörðum króna og lækkuðu um 49% á milli ára, en óhagstæðar aðstæður á verðbréfamörkuðum eru taldar helsta skýring lækkunarinnar. 

Rekstrarkostnaður Landsbankans var 23,9 milljarðar króna og hækkar um 0,4% á milli ára. Þar af námu laun og launatengd gjöld 14,6 milljörðum króna, samanborið við 14,1 milljarð króna árið áður og er það hækkun um 3,8% á milli ára. Annar rekstrarkostnaður lækkaði um 4,5%. 

Hagnaður bankans fyrir skatta í fyrra var 30 milljarðar króna samanborið við 29,7 milljarða króna árið 2017. Reiknaðir skattar, þar með talið sérstakur fjársýsluskattur á laun, voru 11,4 milljarðar króna árið 2018 samanborið við 10,6 milljarða króna árið 2017.

Heildareignir Landsbankans jukust um 133,2 milljarða króna á milli ára og námu í árslok 1.326 milljörðum króna. Útlán jukust um 15,0% milli ára, eða um 138,9 milljarða króna og var aukningin bæði í útlánum til einstaklinga og fyrirtækja.

Vanskilahlutfall útlána hélt þá áfram að lækka og var 0,8% í lok árs 2018, samanborið við 0,9% í lok árs 2017.

Í árslok 2018 voru innlán frá viðskiptavinum 693 milljarðar króna, samanborið við 605 milljarða króna í árslok árið áður.

Eigið fé Landsbankans í árslok 2018 var 239,6 milljarðar króna samanborið við 246,1 milljarð króna í loks árs 2017 og greiddi Landsbankinn 24,8 milljarða króna í arð til hluthafa á árinu. Eiginfjárhlutfall Landsbankans í árslok 2018 var 24,9%, samanborið við 26,7% í árslok 2017, en eiginfjárgrunnur bankans á að lágmarki að vera 20,5%, samkvæmt kröfum Fjármálaeftirlitsins.

Mun bankaráð Landsbankans leggja til við aðalfund, sem haldinn verður 20. mars að greiddur verði arður til hluthafa vegna ársins 2018 sem nemur 0,42 krónu á hlut, eða samtals 9,9 milljörðum króna. Nemur arðgreiðslan um 52% af hagnaði ársins 2018.

„Landsbankinn hefur eflst á árinu 2018 – aukin markaðshlutdeild, bætt rekstrarafkoma, aukin ánægja og traust viðskiptavina er hvatning til að gera enn betur,“ er haft eftir Lilju Björk Einarsdóttur, bankastjóra Landsbankans, í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK