Nauðsynlegt að búa sig undir krísur

Guðjón Arngrímsson og Steingrímur Sævarr Ólafsson ræddu krísustjórnun á morgunverðarfundi …
Guðjón Arngrímsson og Steingrímur Sævarr Ólafsson ræddu krísustjórnun á morgunverðarfundi Kompanís, viðskiptaklúbbs Morgunblaðsins. Eggert Jóhannesson

„Stærstu mistökin sem menn gera er að gera ekki neitt þegar krísur koma upp. Fólk er allt of gjarnt á að ganga út frá því að hlutirnir leysist af sjálfu sér.“ Þetta sagði Steingrímur Sævarr Ólafsson almannatengill á fundi viðskiptaklúbbs Morgunblaðsins, sem nefnist Kompaní, nú í morgun. Yfirskrift fundarins að þessu sinni var: Er þitt fyrirtæki viðbúið krísu?

Á fundinum ræddi Stefán Einar Stefánsson, fréttastjóri viðskipta á Morgunblaðinu, við þá Steingrím Sævarr og Guðjón Arngrímsson sem um langt árabil var upplýsingafulltrúi Icelandair. Var farið vítt yfir sviðið og rætt um viðbrögð við stærri og smærri krísum sem upp geta komið hjá fyrirtækjum.

Gosið var stór prófsteinn í krísustjórnun

Fundurinn var afar vel sóttur og yfir 100 gestir sem hlýddu á umræðuna. Þar rakti Guðjón m.a. viðbrögð Icelandair við gosinu í Eyjafjallajökli árið 2010 og eins hvaða áskoranir mættu fyrirtækinu í tengslum við bankahrunið árið 2008.

„Öll flugfélög búa sig undir stóráföll á borð við flugslys og Icelandair hefur lengi verið með viðbragðsáætlun til taks varðandi áfall af þeim toga. En það eru önnur áföll sem geta komið upp eins og þessi dæmi sanna. Þá skiptir miklu að stjórnendur séu undir það búnir og það hefur löngum verið mitt hlutverk að tryggja að þeir séu það,“ sagði Guðjón.

Þegar Steingrímur var spurður út í hvaða ráð hann gæfi stjórnendum fyrirtækja sem lentu í krísum, stóð ekki á svari.

„Það getur verið mjög gott að leita ráðgjafar um hvernig rétt sé að bregðast við. En svo eru nokkrar reglur sem verður að virða. Það má til dæmis aldrei ljúga og það á alltaf að segja satt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK