Tap Icelandair nemur 6,7 milljörðum

Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair segir erfitt rekstrarár að baki.
Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair segir erfitt rekstrarár að baki. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tap Icelandair Group á síðasta ári nam 55,6 milljónum Bandaríkjadala eftir skatta, eða rúmum 6,7 milljörðum íslenskra króna. Árið áður nam hagnaður fyrirtækisins eftir skatta 37,5 milljónum dollara eða rúmum 4,5 milljörðum króna. Þetta kemur fram í rekstraruppgjöri fyrirtækisins

„Árið 2018 var erfitt rekstrarár. Rekstarniðurstaðan var mun lakari en lagt var upp með í byrjun árs og endurspeglar harða samkeppni í millilandaflugi, lág og oft ósjálfbær fargjöld og mikla hækkun eldsneytisverðs. Jafnframt höfðu breytingar á sölu- og markaðsstarfsemi félagsins, sem og ójafnvægi í leiðarkerfi neikvæð áhrif á afkomuna, eins og áður hefur verið kynnt,“ er haft eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair Group, í fréttatilkynningu. 

Heildartekjur Icelandair á árinu námu 1.511 milljónum dollurum og jukust um 7%. Rekstrarhagnaður ársins var 76,5 milljónir dollara samanborið við 170,1 milljón dollara árið á undan.

Rekstrarhagnaður fyrirtækisins á fjórða ársfjórðungi var neikvæður sem nemur rúmum 4,2 milljörðum króna (35 milljónum dollara) og lækkar á milli ára.

Eru lág meðalfargjöld, hækkun olíuverðs og kolefnisheimilda og mun verri afkoma innanlandsflugs sögð skýra lækkun rekstrarhagnaðar milli ára á fjórða ársfjórðungi.

Eiginfjárhlutfall Icelandair í lok ársins er 32% og handbært fé nam 299,5 milljónum dollara, eða um 36 milljörðum króna.

„Nú þegar hafa verið gerðar breytingar á skipulagi félagsins sem endurspegla áherslur á kjarnastarfsemina, flugrekstur,“ segir Bogi og kveður markmið félagsins vera skýrt — að bæta arðsemi og rekstur félagsins til framtíðar. „Unnið er að fjölmörgum aðgerðum bæði á tekju- og kostnaðarhlið sem eiga að skila sér í bættum rekstri strax á árinu 2019.“

Breytt framboði stuðli að betra jafnvægi milli Evrópu og N-Ameríku í leiðarkerfi félagsins og það auðveldi stýringu þess og hámörkun tekna. „Þá höfum við lagt aukna áherslu á hliðartekjur sem þegar hefur skilað árangri, sölu- og markaðsstarf félagsins verið eflt, auk þess sem innleiðing á nýju tekjustýringakerfi er á lokametrunum.“

Unnið sé að endurskoðun á innanlandsflugi félagsins, auk þess sem flug hefjist í nýjum tengibanka í vor sem muni bæta nýtingu flota og flugáhafna.

„Ljóst er að áfram ríkir óvissa í rekstrarumhverfi félagsins auk þess sem breytingar eru að eiga sér stað í samkeppnisumhverfinu. Það býr hins vegar mikill kraftur og þekking í félaginu og starfsfólki okkar. Fjárhagsstaðan er sterk og ég er sannfærður um að við séum vel í stakk búin til að takast á við þær áskoranir og grípa þau tækifæri sem fram undan eru,“ sagði Bogi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK