Velja á milli Amsterdam og Kaupmannahafnar

Marel
Marel mbl.is/Hjörtur

Hagnaður Marel á síðasta ári nam 122,5 milljónum evra, eða sem nemur 16,8 milljörðum króna. Er það hækkun um 26,4% milli ára. Hagnaður á fjórða ársfjórðungi nam 38 milljónum evra og hækkaði úr 33,8 milljónum evra á sama tíma árið áður. Félagið mun í næsta mánuði tilkynna hvar félagið hyggi á tvíhliða skráningu í alþjóðlegri kauphöll.

Tekjur félagsins á síðasta ári voru 1.197,9 milljónir evra og hækkuðu um rúmlega 15%, úr 1.038,2 milljónum evra.

Haft er eftir Árna Oddi Þórðarsyni, forstjóra félagsins, í tilkynningu til Kauphallarinnar að hann sé ánægður með niðurstöðu fjórða ársfjórðungs og ársins í heild. „Í fjórða ársfjórðungi skilum við mettekjum, 331 milljón evra, sem er 12% aukning samanborið við sterkan fjórða ársfjórðung árið á undan. Tekjur á árinu jukust um 15%, þar af er innri vöxtur 12,5%,“ segir Árni. Þá bendir hann á að pantanir á fjórða ársfjórðungi hafi hækkað um 5% milli ára.

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels.
Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels. mbl.is/Árni Sæberg

Gerir félagið ráð fyrir að almennur markaðsvöxtur í matvælaframleiðslu verði að meðaltali 4-6% á ári og er markmið félagsins að vaxa hraðar en markaðurinn. Þannig kemur fram í tilkynningunni að félagið stefni að 12% meðalvexti árlega yfir tímabilið 2017-2026. Byggir sú sýn á mikilli markaðssókn, nýsköpun og yfirtöku á fyrirtækjum.

Félagið hefur greint frá því að það horfi til tvíhliða skráningar í alþjóðlega kauphöll. Vann félagið ásamt ráðgjafafyrirtækinu STJ advisors að greiningu á mögulegum skráningakosti fyrir félagið. Var niðurstaðan að tvíhliða skráning, bæði hér heima og erlendis væri best fyrir núverandi og verðandi hluthafa.

Sendi félagið upplýsingabeiðni á fimm alþjóðlegar kauphallir og í kjölfarið voru skráningarkostir þrengdir niður í kauphöllina í Amsterdam, Kaupmannahöfn og London. Nú stendur valið fyrst og fremst á milli Euronext í Amsterdam og Nasdaq í Kaupmannahöfn samkvæmt tilkynningunni.

Búist er við að ákvörðun um hvaða kauphöll verði fyrir valinu verði kynnt á aðalfundi félagsins í næsta mánuði sem og ákvörðun um val á þarlendum fjármálastofnunum til ráðgjafar við framkvæmd skráningarinnar. Þegar ákvörðun liggur fyrir má gera ráð fyrir að ferlið taki allt að níu mánuði, en nákvæm tímasetning mun ráðast af þróun í starfsemi félagsins og almennum markaðsaðstæðum. 

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK