Flækjustigið kemur í veg fyrir samkeppni

Gylfi Zoëga, prófessor í hagfræði og fulltrúi í peningastefnunefnd Seðlabanka …
Gylfi Zoëga, prófessor í hagfræði og fulltrúi í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands. Ljósmynd/Seðlabanki Íslands

Verðskrár viðskiptabankanna þriggja eru svo flóknar að það er ekki möguleiki fyrir venjulega viðskiptavini að bera saman kostnað milli þeirra almennilega. Þetta sagði Gylfi Zoëga, prófessor í hagfræði og fulltrúi í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands, á fundi Fjármálaeftirlitsins um samkeppni á fjármálamarkaði.

Gylfi fór inn á heimasíðu eins viðskiptabankans meðan hann hélt erindi sitt og sýndi gestum hvernig hefðbundin verðskrá liti út. Sagði hann ekki einu sinni mögulegt að læra á verðskrána þótt hann færi upp í sumarbústað heila helgi og gerði ekkert nema rýna í skrána.

Flækjustigið viljandi mikið

Sagði hann tilgátu sína vera þá að flækjustigið væri viljandi svona mikið og það komi í veg fyrir samkeppni. Sagði hann ljóst að bankarnir þurfi að keppa um stóra viðskiptavini eins og fyrirtæki þegar komi að kostnaði, en það væri engin leið að hafa almennilega samkeppni þegar verð væru svona ógegnsæ.

Gylfi sagði að með þessu fyrirkomulagi verði til há renta í bönkunum sem svo skili sér í háum launum í fjármálaþjónustu. Hafa launamál í bankakerfinu meðal annars verið talsvert í umræðunni síðustu daga eftir að ljóst varð að laun bankastjóra Landsbankans höfðu hækkað um 82%.

Draga þarf úr rentunni 

Rentan í bankakerfinu var Gylfa ofarlega í huga og sagði hann að eftir einkavæðingu hafi rentan farið til eigenda bankans sem tóku lán á góðum kjörum í gegnum bætt lánstraust vegna tryggingar ríkisins. Var það fjármagn svo lánað áfram til kaupsýslumanna sem fjárfestu til dæmis erlendis, en hefðu ekki fengið viðlíka kjör þar. Sagði hann að svo hefðu sömu eigendur farið að lána sér og félögum í sinni eigu og þar hefðu þeir enn frekar komið rentunni til sín.

Þessi vandamál eru að sögn Gylfa ekki til staðar í dag, en á móti kemur samkeppnin, eða skortur á henni eins og hann hafði komið inn á áður. Sagði hann nauðsynlegt að draga úr þessari rentu til heilla fyrir almenning. Sagði hann eina leið til þess að opna landið meira upp og fá erlenda samkeppni og nefndi hann meðal annars í því samhengi erlend tæknifyrirtæki eins og Amazon.

„Þetta eru peningar almennings“

Í erindi sínu fór Gylfi víða. Gagnrýndi hann meðal annars uppbyggingu Landsbankans á höfuðstöðvum sínum í miðbænum og spurði hvers vegna ekki hefði verið leigt í húsnæði í Kópavogi. „Þetta eru peningar almennings,“ sagði Gylfi og bætti við að fasteign sem þessi muni ekki bera neinn arð fyrir bankann.

Til að setja kostnað við höfuðstöðvarnar í samhengi benti hann á að áætlaður kostnaður við þær væri 7 milljarðar. Veggurinn sem Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur mikið talað fyrir væri svo talinn kosta svipaða upphæð nema í Bandaríkjadölum. Það væri ágætisþumalputtaregla að Bandaríkjamenn væru um þúsund sinnum fleiri en Íslendingar og því kæmi út að höfuðstöðvar Landsbankans væru hlutfallslega tíu sinnum dýrari fyrir Ísland en veggurinn fyrir Bandaríkin. Þess má þó geta að engin endanleg tala liggur fyrir um kostnað við gerð veggs á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó, en kostnaðartölur sem settar hafa verið fram eru á bilinu 8 milljarðar dala upp í 70 milljarða.

Gagnrýninn á sjálfvirknivæðingu

Sjálfvirknivæðing í bankakerfinu var einnig meðal þess sem Gylfi kom inn á. Sagði hann sögu af því þegar hann endaði með að greiða tvisvar fyrir stæði við Seðlabankann í nýju stöðumælunum þar sem hann hafði skrifað inn vitlaust bílnúmer. Í framhaldinu fékk hann svo sekt, þrátt fyrir að hafa borgað tvöfalt gjald. Þegar hann reyndi að laga þetta fékk hann ekki samband við þjónustufulltrúa heldur bara símsvara. Sagði Gylfi þetta vera sama viðmót og margir upplifðu í bankaviðskiptum í dag.

„Tölvan ákveður hvort ég fái lán eða ekki, mannshugurinn er víðsfjarri,“ sagði hann og bætti við að í viðskiptalífi skipti mannleg dómgreind miklu og hún þyrfti að vera við lýði í bankaviðskiptum. Sagði hann að í bankaviðskiptum eigi að felast mannleg samskipti og dómgreind þar sem góð hegðun væri verðlaunuð.

Rifjaði Gylfi við þetta tækifæri aftur upp mögulega innkomu tæknifyrirtækja eins og Amazon á markaðinn og sagði að þetta væru fyrirtæki sem í dag vissu mjög mikið um viðskiptavini sína. Með því gætu þau dregið úr áhættu og markaðsbrestum, en á móti kæmu stórar spurningar varðandi persónuvernd sem þyrfti að fara yfir vandlega.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK