Íslandsbanki hagnaðist um 10,6 milljarða

Höfuðstöðvar Íslandsbanka í Smáranum í Kópavogi. Bankinn hagnaðist um 10,6 …
Höfuðstöðvar Íslandsbanka í Smáranum í Kópavogi. Bankinn hagnaðist um 10,6 milljarða króna á síðasta ári. mbl.is/Eggert

Íslandsbanki hagnaðist um 10,6 milljarða króna á árinu 2018 og dregst hagnaður bankans saman frá fyrra ári um 2,6 milljarða króna. Hagnaður bankans á fjórða ársfjórðungi 2018 nam 1,4 milljörðum króna. Þetta kemur fram í ársuppgjöri bankans, sem birt var á vefsíðu hans í kvöld, ásamt ársreikningi.

Stjórn Íslandsbanka leggur til að 5,3 milljarðar króna verði greiddir í arð til hluthafa og er það sagt í samræmi við langtímastefnu bankans um að greiða um 40-50% af hagnaði hvers árs í arð til hluthafa.

„Afkoma bankans og Íslandssjóða var ágæt á árinu,“ segir Birna Einarsdóttir bankastjóri í tilkynningu, en hún bætir við að erfiður rekstur annarra dótturfélaga hafi dregið heldur úr afkomunni.

„Fjármögnun bankans var vel heppnuð á árinu og er lausafjárstaðan sterk í bæði íslenskum krónum og erlendum gjaldmiðlum, áhætta bankans er áfram hófleg og henni vel stýrt,“ segir Birna einnig.

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka.
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka. mbl.is/Golli

Árslaun bankastjóra 63,5 milljónir

Laun bankastjóra Íslandsbanka á árinu 2018 voru 63,5 milljónir króna, eða tæpar 5,3 milljónir króna á mánuði að meðaltali.

Fram kom fyrr í vikunni í kjölfar mikillar umræðu um kjör forstjóra Landsbankans, hins bankans sem er í eigu ríkisins, að bankastjóri Íslandsbanka hefði beðið um að laun hennar yrðu lækkuð um 14,1% í nóvember síðastliðnum, niður í 4,2 milljónir króna á mánuði.

Tekið skal fram að svo virðist sem árangurtengdar greiðslur til bankastjórans, sem námu 3,9 milljónum króna á síðasta ári, séu lagðar saman við regluleg mánaðarlaun í framsetningu á ársreikningi Íslandsbanka.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK