Mikilvægt að hlusta og skilja

Katrín Jakobsdóttir forsætisáðherra ávarpar Viðskiptaþing.
Katrín Jakobsdóttir forsætisáðherra ávarpar Viðskiptaþing. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mikilvægast er fyrir leiðtoga að hlusta og skilja. Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í erindi sínu á Viðskiptaþingi á Hilton hóteli í Reykjavík, en yfirskrift þingsins er „Skyggni nánast ekkert - forysta í heimi óvissu“. Katrín sagðist ekki þurfa að tíunda þá óvissu sem til staðar væri á alþjóðavettvangi, þar sem hið eina fyrirsjáanlega væri hið ófyrirsjáanlega, eða óvissuna vegna tæknibreytinga og loftslagsbreytinga. Íslendingar hefðu einnig búið við pólitíska óvissu um tíma en sem betur fer væri sú óvissa hins vegar ekki lengur fyrir hendi. Vísaði hún þar til myndunar ríkisstjórnar hennar fyrir rúmu ári og uppskar bæði lófatak og hlátur.

Stundum tækju þeir að sér leiðtogahlutverkið sem væru vissastir í sinni sök. Það væri hins vegar ekki nóg að taka aðeins slaginn á sjálfstraustinu einu saman. Leiðtogi þyrfti að geta tekið slaginn og vera áræðinn þegar taka þyrfti af skarið jafnvel þótt það leiddi stundum til rangrar ákvörðunartöku. Leiðtogi þyrfti að geta glaðst og geta smitað þeirri gleði til þess að geta fengið fólkið sitt með sér. Einkum á óvissutímum væri mikilvægt að leiðtogi gæti hugsað og skilið.

Frá Viðskiptaþingi.
Frá Viðskiptaþingi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hægt að breyta umræðunni hratt

Hlutverk íslenskra stjórnmálamanna væri enn fremur að tryggja að Ísland yrði ekki fyrir þeirri sundrungu sem víða sæist í heiminum í dag þar sem fólk skiptist í fylkingar sem skildu ekki hver aðra og vildu ekki skilja hver aðra. Stórir hópar fólks upplifðu sig jaðarsetta í samfélaginu og viðbrögðin væru þau að kjósa nýtt upphaf. Þetta væri til að mynda ástæðan fyrir fyrirhugaðri útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Fólk hafi viljað nýtt upphaf.

Við þessar aðstæður væri mikilvægt að hlusta og skilja. Kannski teldu einhverjir að slíkt gæti ekki gerst á Íslandi. En samfélagið væri lítið og hægt væri að breyta umræðunni hratt. Þetta þyrfti ekki síst viðskiptalífið að hafa í huga. Vísaði hún til yfirstandandi kjaraviðræðna þar sem atvinnulífið hafi lagt áherslu á að svigrúm til launahækkana væri ekki mikið. Katrín sagði að ekki væri deilt um að kjarasamningar þyrftu að taka mið af stöðu efnahagslífisins á hverjum tíma.

„En á slíkum tímum hljóta stjórnendur, leiðtogar í atvinnulífinu, að vera reiðubúnir að leggja sjálfa sig undir, sýna ábyrgð í launstefnum, taka ábyrgð á því að svigrúmið sé lítið, að hugsa um heildina fyrst og fremst,“ sagði Katrín. Verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur hefðu gagnrýnt kjararáð og miklar hækkanir þess hjá ráðamönnum ríkisins. Ríkisstjórnin hefði hlustað og lagt kjararáð niður. Katrín sagðist telja að endurskoða þyrfti fleiri geira hjá hinu opinbera.

Katrín Jakobsdóttir á Viðskiptaþingi.
Katrín Jakobsdóttir á Viðskiptaþingi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mun ekki eitt bera ábyrgð á stöðugleikanum

„Það skiptir máli að hlusta á það sem fólkið í landinu hefur að segja. Það skiptir máli fyrir leiðtoga að sýna skilning í verki. Það er ekki í boði að biðja fjöldann um að hafa sig hægan. Fólkið á lægstu laununum er ekki eitt að fara að bera ábyrgð á stöðugleikanum,“ sagði Katrín. Sagðist hún ekki trúa öðru en að hægt væri að fylla stöður stjórnenda í viðskiptalífinu með hæfu fólki þótt fylgt væri hóflegri launastefnu.  Ef stjórnendur vildu vera leiðtogar hlytu þeir að hlusta.

Stjórnendur þyrftu hins vegar ekki aðeins að hlusta á stjórnvöld hefur einnig á samfélagið. Sýna skilning og ganga á undan með góðu fordæmi. „Ég er tilbúin til að leggja mjög mikið undir og taka slaginn til að viðhalda þessu samfélagi þar sem býr aðeins ein þjóð því ég veit að það er mikilvægt fyrir efnahaginn.“ Það væri hins vegar ekki síður réttlátt og sanngjarnt.

Katrín Olga Jóhannesdóttir, formaður Viðskiptaráðs Íslands.
Katrín Olga Jóhannesdóttir, formaður Viðskiptaráðs Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir