Valdamiklir saksóknarar sem vilja játningu

Fréttaflutningur af Ghosn á götuskjá í Tókýó. Hann hefur nú …
Fréttaflutningur af Ghosn á götuskjá í Tókýó. Hann hefur nú setið í varðhaldi í þrjá mánuði. AFP

Carlos Ghosn, fyrrverandi forstjóri Nissan-bílaframleiðandans, hefur nú setið þrjá mánuði í varðhaldi og má gera ráð fyrir að fangelsisdvölin eigi eftir að vera mun lengri. Aðalverjandi Ghosn var, allt þar til hann hætti óvænt í gær, fyrrverandi ríkissaksóknari Japan. Hann hafði áður sagt Ghosn vera fórnarlamb „gíslatökuréttlætis“.

Glæpatíðni er lág í Japan og segir BBC það ekki bara vera vegna þess hve einsleit menningin er og tekjumunur lítill. Margir séu líka einfaldlega dauðhræddir við að vera handteknir.

BBC nefnir sem dæmi að listamaðurinn Megumi Igarashi hafi verið í varðhaldi í þrjár vikur árið 2014 án þess að fá að ræða við lögfræðing fyrir að dreifa „klámfengnu efni“. Igarashi hafði skannað eigin kynfæri og notaði myndina síðan til að búa til módel af hlutum á borð við kajakbát og lyklakippu. Þó að flestum hafi þótt uppátæki Igarashi fyndið og kallað hana „píkulistamanninn“ var saksóknurum í Tókýó ekki skemmt.

Tilgangurinn að ná fram játningu

BBC bendir á að í Bretlandi megi aðeins halda sakborningi sem grunaður er um hryðjuverk í 14 daga án þess að leggja fram ákæru en í Japan megi halda einstaklingi sem grunaður er um búðahnupl í 23 daga án þess að ákæra hann.

Japanska dómskerfið byggir að miklu leyti á yfirheyrslum. „Tilgangurinn er að ná fram játningu,“ segir Nobuo Gohara, sem var hjá embætti saksóknara í 23 ár áður en hann sagði upp. Hann starfar nú hjá lögfræðistofu og vinnur að herferð til að ná fram endurbótum á dómskerfinu. „Sá sem viðurkennir glæp sinn, hann er látinn laus úr varðhaldi,“ segir Gohara.  Öðru máli gildi hins vegar um þann sem neiti. „Skrifstofa saksóknara leggst hart gegn því að hann verði látinn laus þar til játning liggur fyrir.“

BBC segir þetta hafa gerst í máli Tomohiro Ishikawa. Hann var þingmaður er hann var handtekinn árið 2010 og sakaður um að hafa þegið mútur. Honum var haldið í litlum óupphituðum fangaklefa í þrjár vikur. Dag hvern var hann yfirheyrður í 12 tíma án þess að fá að hafa lögfræðing viðstaddan. Hann játaði sig að lokum sekan um minna brot og nú 10 árum síðar er hann enn bitur vegna þessa.

 „Japanskir saksóknarar eru mjög þrautseigir,“ sagði hann. „Þeir skrifa handritið áður en þeir handtaka mann.“  Sakborningurinn sé síðan þvingaður til að játa á sig brot í samræmi við handritið. „Í yfirheyrslunum skrifuðu þeir ekki niður það sem ég sagði, þess í stað sýndu þeir mér það sem þeir höfðu útbúið áður og kröfðust þess að ég skrifaði undir. Ég sagði þeim margsinnis að ég myndi ekki skrifa undir af því að þetta var ekki það sem ég hafði sagt.“

89% sakfellinga byggja á játningu

BBC segir þrýstinginn á að játa vera enn meira áhyggjuefni í ljósi þess að 89% allra sakfellinga í Japan byggja að hluta eða öllu leyti á játningu. Þannig séu fjölmörg dæmi um fólk sem hafi setið í fangelsi árum saman fyrir glæpi sem það framdi ekki, eða þar sem verulegar efasemdir hafi verið um sakfellinguna vegna „ótryggra“ játninga.

Árið 1968 var fyrrverandi atvinnuhnefaleikakappinn Iwao Hakamada dæmdur til dauða fyrir morð. Dómurinn byggði á játningu sem hann veitti eftir langvarandi yfirheyrslur og dró síðar til baka. Það var þó ekki fyrr en árið 2014, er hann hafði verið á dauðaganginum í 46 ár, sem Hakamada var látinn laus þar sem engar sannanir studdu játninguna. Hann er í dag 82 ára og er enn að reyna að fá nafn sitt hreinsað.

Saksóknarar æðri yfirmanninum

Gohara segir rót vandans vera hversu valdamiklir saksóknarar eru. „Samkvæmt japönskum lögum hefur skrifstofa saksóknara réttinn til að ákæra. Þeir hafa líka réttinn til að fella mál niður og það felur í sér að saksóknarar eru mjög valdamiklir í japanska réttarkerfinu,“ segir hann. Auk þess fylgi flestir dómstólar eftir ákvörðunum saksóknara.

Colin Jones, lagaprófessor við Doshisha-háskólann í Japan, lýsti í nýlegri grein í dagblaðinu Japan Times því mikla valdi sem saksóknarar hafa. Þar bendir hann á að háttsettir saksóknarar séu í raun æðri meintum yfirmanni sínum hjá dómsmálaráðuneytinu til að mynda varðandi launaþrep. Auk þess byggi ráðningar þeirra á staðfestingu frá keisaranum sjálfum, en svo sé ekki varðandi flesta aðra háttsetta ríkisstarfsmenn.

Þetta, segir BBC, er réttarkerfið sem Ghosn stendur nú frammi fyrir. Kerfi þar sem því lengur sem maður fæsti ekki til að játar því alvarlegri verða ákærurnar. Þetta sé enn fremur kerfi þar sem að líkurnar á að sakfelldur, ákæri saksóknari mann, eru um 99%.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK