Hlutafjáraukning fyrir frekari sókn Eldeyjar

Hrönn Greipsdóttir er framkvæmdastjóri Eldeyjar.
Hrönn Greipsdóttir er framkvæmdastjóri Eldeyjar. Árni Sæberg

Fjárfestingarfélagið Eldey hefur á undanförnum árum fjárfest í afþreyingartengdum ferðaþjónustufyrirtækjum. Nýjasta fjárfestingin er 51% hlutur í Sportköfunarskóla Íslands, Dive.is. Eldey er í stýringu hjá Íslandssjóðum, dótturfélagi Íslandsbanka og segir Hrönn Greipsdóttir, framkvæmdastjóri Eldeyjar, mörg tækifæri fyrir hendi og félagið stefni á tveggja til þriggja milljarða króna hlutafjáraukningu á næstunni.

Stefnt er að tveggja til þriggja milljarða króna hlutafjáraukningu í fjárfestingarfélaginu Eldey TLH hf. á næstunni. Eldey hefur undanfarin ár fjárfest í afþreyingartengdum ferðaþjónustufyrirtækjum og nema fjárfestingar félagsins tæplega þremur milljörðum króna frá árinu 2015.

Eldey er í stýringu hjá Íslandssjóðum sem er dótturfélag Íslandsbanka og segir Hrönn Greipsdóttir, framkvæmdastjóri Eldeyjar mörg tækifæri fram undan fyrir félagið, bæði með áframhaldandi uppbyggingu þeirra fyrirtækja sem félagið hefur þegar fjárfest í, en einnig með fjárfestingum í nýjum félögum.

Eldey TLH hf. var formlega stofnað í desember 2015 og var stærð félagsins við stofnun rúmlega þrír milljarðar króna en frá upphafi var gert ráð fyrir hlutafjáraukningu um tvo til fjóra milljarða. Hluthafar Eldeyjar eru 26 talsins, þar af eru sex lífeyrissjóðir sem eru flestir með um og yfir tíu prósenta hlut hver. Eldey á í dag 62,2 prósenta hlut í Íslenskum fjallaleiðsögumönnum sem hefur verið sameinað ferðaþjónustufyrirtækinu Arcanum, 20 prósent í Íslenskum heilsulindum sem er eignarhaldsfélag um uppbyggingu og rekstur náttúrubaðstaða, 43,31 prósents hlut í hvalaskoðunarfyrirtækinu Norðursiglingu á Húsavík og 67,31 prósents hlut í Sögu Travel og GeoIceland. Nýjasta fjárfestingin er 51 prósents hlutur í Sportköfunarskóla Íslands betur þekktum sem Dive.is sem m.a. gerir út sportköfunarferðir í Silfru á Þingvöllum en lúkning kaupanna mun fara fram um leið og ákvörðun Samkeppniseftirlitsins liggur fyrir. „Það liggja fyrir áform um að stækka Eldey. Við erum á þeim stað í dag að við erum langt komin með fjárfestingargetu okkar. Mörg tækifæri liggja í þeim verkefnum sem við erum þegar í og kauptækifæri á markaði eru allt önnur í dag en þau voru árið 2015,“ segir Hrönn í samtali við ViðskiptaMoggann en blaðamaður fór á fund hennar á skrifstofu Íslandssjóða í Norðurturni í vikunni.

„Við erum búin að fjárfesta fyrir 2,7 til 2,8 milljarða og það sem er eftir er eyrnamerkt til þeirra félaga sem við höfum þegar fjárfest í,“ segir Hrönn. „Til þess að geta farið í nýfjárfestingar þá þurfum við aukið hlutafé, en það er alfarið í höndum hluthafanna að ákveða hvort það verði af slíkri hlutafjáraukningu eða ekki,“ segir Hrönn en hún segir áform um hlutafjáraukninguna skýrast betur síðar á árinu. „Við erum að horfa til þess að það verði komin skýr mynd á þetta á miðju ári.“

„Eldey er hlutafélag, fjárfestingarfélag en ekki sjóður. Iceland Travel Fund er t.a.m. sjóður með takmarkaðan líftíma eins og flestir framtakssjóðir en við erum fjárfestingarfélag á hlutafélagaformi þannig að við getum aukið hlutafé félagsins. Þegar við hófum þessa vegferð var skýrt í öllum okkar kynningum að við vildum stækka eftir því sem fram liðu stundir,“ segir Hrönn.

Sjá ítarlegt viðtal við Hrönn í ViðskiptaMogganum.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK