Flugfélagið Flybmi gjaldþrota

Flugfélagið Flybmi hefur nú bæst í raðir þeirra flugfélaga sem ...
Flugfélagið Flybmi hefur nú bæst í raðir þeirra flugfélaga sem lýst hafa yfir gjaldþroti. AFP

Breska flugfélagið Flybmi er nú komið í greiðslustöðvun og var öllum ferðum flugfélagsins aflýst í dag. Flybmi var með 17 vélar í áætlanaflugi til 25 Evrópuborga og segja forsvarsmenn flugfélagsins að útganga Breta úr Evrópusambandinu eigi stóran þátt í versnandi rekstri þess.

Sky sjónvarpsstöðin segir 376 manns í Bretlandi, Þýskalandi, Svíþjóð og Belgíu hafa unnið fyrir Flybmi. Þá eru ferðaáætlanir þúsunda  sem áttu pantað flug með flugfélaginu nú í uppnámi.

Hannah Price, einn farþega flugfélagsins, skrifaði á Twitter að hún óttaðist að verða strandaglópur í Brussel eftir að tilkynnt var um gjaldþrotið.

Þá sagði Richard Edwards, annar ósáttur farþegi, að hann og fjölskylda hans hefðu ekki frétt af því að flugi þeirra hafði verið aflýst fyrr en eftir að þau voru komin í gegnum öryggiseftirlit.

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir