4,8 milljónir hóflegt og samkeppnishæft

Bankastjórn Íslandsbanka segir laun bankastjóra í samræmi við ákvæði starfskjarastefnu ...
Bankastjórn Íslandsbanka segir laun bankastjóra í samræmi við ákvæði starfskjarastefnu bankans. mbl.is/Ófeigur

Bankastjórn Íslandsbanka segir laun og önnur starfskjör bankastjóra Íslandsbanka, Birnu Einarsdóttur, vera í samræmi við starfskjarastefnu bankans, sem miðar að því að bjóða skuli samkeppnishæf og hófleg kjör, að því er segir í svari stjórnar Íslandsbanka við fyrirspurn Bankasýslu ríkisins.

Þá er greint frá því í svarinu að starfskjörin taki meðal annars mið af umsvifum, ábyrgð og árangri. Jafnframt að þau skuli ekki vera leiðandi. „Stjórn bankans telur sig hafa unnið í samræmi við ákvæði starfskjarastefnu bankans. Heildarlaun bankastjórans verða lægri á árinu 2019 heldur en þau voru á árinu 2016 þegar ríkið eignaðist bankann.“

Grunnlaun Birnu hækka hins vegar um 2,54% á árunum 2016 til 2019.

Heildarlaun Birnu verða 57,5 milljónir á þessu ári, en voru 60,6 milljónir 2016 ef litið er til kaupaukagreiðslna sem nú eru óheimilaðar. Grunnlaun bankastjórans hækka þó á þessu tímabili úr 49,1 milljón í 50,4 milljónir króna.

Kaupauki greiddur til 2020

Grunnlaun bankastjórans munu á þessu ári vera 4,4 milljónir króna auk hlunninda. Þá fær Birna einnig greiddan kaupauka á árinu sem nemur 4,7 milljónum króna sem gerir mánaðarlaun hennar rétt tæpar 4,8 milljónir króna á mánuði.

Í starfskjarastefnu bankans er tekið fyrir að bankinn greiði kaupauka, en bankastjórnin segir að þessar greiðslur til Birnu séu eftirstöðvar ráðningarsamnings hennar frá 2012 sem hún gerði áður en ríkið tók yfir 95% eignarhlut Glitnis hf. í Íslandsbanka byrjun árs 2016.

Gert er ráð fyrir að kaupauki bankastjórans verði að fullu greiddur árið 2020.

Taka tillit til árangurs

„Við ákvörðun launa bankastjórans hefur stjórn meðal annars horft til reynslu bankastjórans, árangurs, viðskiptatengsla og hæfni. Að mati stjórnar Íslandsbanka hefur starfsárangur núverandi bankastjóra, Birnu Einarsdóttur verið afar góður,“ segir stjórnin.

Hagnaður bankans árið 2016 var 20,1 milljarður króna, 13,2 milljarðar árið 2017 og 10,6 milljarðar 2018.

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir