25 sagt upp hjá Ölgerðinni

Hjá Ölgerðinni vinna rúmlega 400 manns. Eftir skipulagsbreytingar fækkar þeim …
Hjá Ölgerðinni vinna rúmlega 400 manns. Eftir skipulagsbreytingar fækkar þeim um 25. mbl.is/Árni Sæberg

Tuttugu og fimm manns hefur verið sagt upp störfum hjá Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni samhliða skipulagsbreytingum hjá félaginu. Rúmlega 400 manns vinna hjá Ölgerðinni og því er um rúmlega 5% starfsmanna að ræða. Andri Þór Guðmundson forstjóri Ölgerðarinnar segir í samtali við mbl.is að uppsagnirnar séu þvert á allar deildir fyrirtækisins. „Þar sem hluta lagerstarfsemi og dreifingar verður nú útvistað til Eimskips og Flytjanda þá er stærstur hluti starfsmanna sem sagt er upp þaðan. Einhverjum þeirra mun hins vegar gefast kostur á atvinnuviðtali hjá Eimskipi.“

Andri segir að fyrirtæki eins og Ölgerðin þurfi í sífellu að vera að endurskoða reksturinn til að gera betur í dag en í gær eins og hann orðar það. „Við erum að reyna að einfalda hlutina og skerpa okkur í samkeppninni.“

Spurður um rekstur félagsins á því rekstrarári sem er að ljúka nú í febrúar, segir Andri að árið verði betra en árið 2017, en það ár litaðist af innkomu Costco á markaðinn. Markaðurinn hafi nú leitað jafnvægis.

„Markaðurinn er síkvikur. Samkeppni er mikil og breytingar verða einnig hjá okkar viðskiptavinum, ásamt því sem neysluvenjur breytast.“

Andri Þór Guðmundsson.
Andri Þór Guðmundsson. mbl.is/Golli

Í tilkynningu Ölgerðarinnar segir að eftir breytingarnar verði Ölgerðin alhliða drykkjarfyrirtæki, og nánast allur annar innflutningur, þ.e. innflutningur á matvöru, snyrti- og sérvöru, og á vörum til stóreldhúsa, í bakarí og matvælaframleiðslu, verði hjá dótturfyrirtækinu Danól.

„Starfsemi Ölgerðarinnar hefur margfaldast síðustu ár og fyrirtækið leitar sífellt leiða til að geta gert hlutina enn betur, styrkja sig á markaði, hagræða og auka möguleika til vaxtar. Einföldun í rekstri, styttri boðleiðir og skýrari stefna er því rétta skrefið á þessum tímapunkti fyrir bæði viðskiptavini og fyrirtækið sjálft,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK