Milliliðalaus tengsl gera viðskiptin skjótari og ódýrari

Nikolaj Kosakewitsch er forstjóri Kauphallarinnar í Kaupmannahöfn.
Nikolaj Kosakewitsch er forstjóri Kauphallarinnar í Kaupmannahöfn.

Þrjú íslensk fjármálafyrirtæki hafa á skömmum tíma gerst aðilar að dönsku kauphöllinni, Nasdaq Copenhagen; Fossar markaðir, Íslandsbanki og Kvika banki, þau tvö síðastnefndu fyrr í þessum mánuði. Nikolaj Kosakewitsch, forstjóri Nasdaq Copenhagen, segir að aðild þeirra að markaðinum sé eðlileg þróun.

Nikolaj Kosakewitsch er ekki ókunnugur Íslandi. Hingað hefur hann vanið komur sínar allt síðan 2005, þegar hann vann hjá SEB, einum stærsta banka Svíþjóðar. „Ég kom reglulega til landsins á árunum 2005 til 2009, þegar ég vann hjá SEB. Eftir að fjármagnshöftin voru sett á á Íslandi varð erfiðara um vik að eiga viðskipti með mínum tengiliðum á markaðnum. Ég byrjaði hjá Nasdaq 2017 og hef í gegnum starf mitt þar átt í samskiptum við Ísland, en til að mynda kom hópur á okkar vegum í stóra ferð til landsins á síðasta ári og voru ýmsir aðilar heimsóttir, þar á meðal fulltrúar íslensku bankanna,“ segir Kosakewitsch í samtali við ViðskiptaMoggann.

Hann segir, spurður að því hver munurinn sé á því að starfa hjá fjármálafyrirtæki og kauphöll, að nú sé hann hinum megin borðsins. „Bankarnir sem voru áður samkeppnisaðilar eru núna viðskiptavinir. Það er munur á því að vinna við að skapa arð fyrir viðskiptavini í banka og að reka fjárhagslega innviði eins og gert er í kauphöll. Störfin krefjast ólíkrar hæfni. Kauphallarumhverfið er ótrúlega reglusett, og mun meira en ég átti að venjast í bankakerfinu. En að öðru leyti þá er Nasdaq miklu frekar tæknifyrirtæki heldur en rekstraraðili kauphallar, og í þeim efnum erum við í fararbroddi í heiminum. Sá kauphallarbúnaður sem við þróum er bæði gerður fyrir okkar eigin kauphallir og aðrar. Við erum með meira en 90 kauphallir í viðskiptum um allan heim.“

Kosakewitsch segir að vöxtur Nasdaq muni verða mestur á tæknihliðinni í framtíðinni, eins og til dæmis á sviði gagnaauðgunar (e. data enrichment). „Hugbúnaður okkar fyrir kauphallir er í fremstu röð og það er markmið okkar að ná að selja hann til allra helstu markaða í heiminum.“

Tækniþróunin fer að hans sögn langmest fram í Svíþjóð, en einnig í Bandaríkjunum og á Indlandi.

Fyrirhafnarlaus tengsl

Sú staðreynd að allar Nasdaq-kauphallirnar nota sama heimasmíðaða hugbúnaðinn hefur marga kosti í för með sér að sögn Kosakewitsch. Það geri það að verkum að kauphallaraðilar, eins og fjármálafyrirtækin sem greint var frá hér á undan eigi auðvelt með að tengjast öðrum Nasdaq-kauphöllum og færa út kvíarnar. „Fyrirtækin þurfa ekki að leggja út í neina viðbótarforritun. Tengslin eiga sér stað nokkuð fyrirhafnarlaust.“

Hann bætir við til frekari útskýringar að ef fyrirtæki sem er með aðild að Nasdaq í New York, með útibú í Evrópu, vill tengjast Kaupmannahöfn, þá sé tæknin báðum megin sú sama og eftirleikurinn því auðveldur. „Þess vegna hefur okkur orðið jafn vel ágengt og raun ber vitni í að ná í viðskipti um allan heim. Fjárfestar víða að geta með þessum hætti tengst við kauphallirnar hér á Norðurlöndum. Vonandi nær þetta að breiðast einnig út til Íslands, þegar fleiri fyrirtæki fara að skrá sig á markaðinn þar.“

Danski markaðurinn hefur að sögn Kosakewitsch verið sá markaður í heiminum sem hefur gefið hvað bestu og stöðugustu ávöxtunina síðustu 6-7 ár. Geirar sem eru áberandi í dönsku kauphöllinni eru að hans sögn heilbrigðistæknigeiri og matvælageiri, á meðan sænski markaðurinn til samanburðar einkennist af véla- og vöruframleiðendum, timburframleiðslu, og lyfjum m.a.

„Fyrirtækin í dönsku kauphöllinni eru mörg hver í fararbroddi í heiminum á þeirri litlu syllu markaðarins sem þau eru á. Þegar þú ert með sterka markaðsstöðu, hvort sem er í matvælaiðnaði eða til dæmis í heyrnartækni, þá skipta bréf félagsins um hendur á mjög vel viðunandi margföldurum (e. multiples). Þessi fyrirtæki hafa mörg hver sýnt fram á mikinn og góðan vöxt.“

Sjá viðtalið við Kosakewitsch í heild sinni í ViðskiptaMogganum í dag. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK