Sektir verði endurgreiddar

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. mbl.is/Golli

Seðlabanki Íslands telur eðlilegt að endurskoða strax allar sektarákvarðanir og sættir vegna brota á fjármagnshöftum í gildistíð reglna um gjaldeyrismál þar til reglurnar voru lögfestar síðla árs 2011.

Þetta kemur fram í tilkynningu.

Seðlabankinn mun fara þess á leit að ríkissjóður endurgreiði sektir vegna brota á reglum um gjaldeyrismál. Hlutaðeigandi aðilar mega eiga von á bréfi frá Seðlabankanum á næstunni þess efnis.

Umboðsmaður Alþingis birti í lok janúar álit vegna kvörtunar einstaklings á afgreiðslu Seðlabanka Íslands á kröfu hans um að Seðlabankinn afturkallaði, að eigin frumkvæði, stjórnvaldsákvörðun vegna brota gegn reglum um gjaldeyrismál.

Það er meðal annars niðurstaða umboðsmanns að við meðferð málsins hafi Seðlabankinn ekki tekið afstöðu til röksemda sem lutu að ummælum ríkissaksóknara um gildi laga og reglna um gjaldeyrismál, sem refsiheimilda, sem fram komu í afstöðu hans til sex mála frá 20. maí 2014.

Í yfirlýsingu Seðlabankans sem birt var 19. febrúar í tilefni álits umboðsmanns hefur bankinn ráðist í ítarlega skoðun á því hvað í álitinu felst.

Meginatriði skoðunarinnar snýst um hvort fullnægjandi heimildir hafi verið til staðar til að leggja á stjórnvaldssektir eða refsa með öðrum hætti fyrir brot gegn fjármagnshöftum frá því að þeim var komið á undir lok árs 2008 og þar til lögum um gjaldeyrismál var breytt síðla árs 2011.

Vegna álits umboðsmanns Alþingis ritaði Seðlabankinn ríkissaksóknara bréf þar sem þess var óskað að ríkissaksóknari skýrði frekar þau ummæli um gildi reglna um gjaldeyrismál sem refsiheimilda sem fram komu í ákvörðunum hans, að því er kemur fram í tilkynningunni.  

Í svarbréfi ríkissaksóknara sem barst bankanum undir lok síðustu viku segir að mat hans sé að reglur um gjaldeyrismál gátu ekki talist gild refsiheimild fyrr en þær voru lögfestar. „Með bréfinu er þar með tekinn af allur vafi um að mat ríkissaksóknara, sem æðsta handhafa ákæruvalds, sé að reglusetningarheimild í bráðabirgðaákvæði laga um gjaldeyrismál hafi ekki uppfyllt áðurnefnd skilyrði um framsal lagasetningarvalds og skýrleika refsiheimilda,“ segir í tilkynningunni. 

Þar með gætu reglur um gjaldeyrismál, sem settar voru á grundvelli bráðabirgðaákvæðisins, ekki talist gildar sem refsiheimild.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK