Met-tekjur og skilyrði til að auka arðgreiðslur

Hörður Arnarsson, forstjóri Landsvirkjunar.
Hörður Arnarsson, forstjóri Landsvirkjunar. mbl.is/Hari

Hagnaður Landsvirkjunar á síðasta ári var 121 milljón Bandaríkjadala, eða sem nemur um 14 milljörðum króna. Árið áður var hagnaðurinn 108 milljónir dala. Rekstrartekjur félagsins jukust um 50,8 milljónir dala og voru samtals 533,9 milljónir dala í fyrra, en það nemur um 61,9 milljörðum króna. Rekstrarhagnaður (EBITDA) var 389,9 milljónir dala, eða 45,2 milljarðar króna, og var 73% af rekstrartekjum.

Nettóskuldir Landsvirkjunar voru í árslok 1.884,6 milljónir dala, eða 218,6 milljarðar og lækkuðu um 158 milljónir dala á árinu. Handbært fé frá rekstri nam 295,8 milljónum dala og hækkaði um 6,4% milli ára.

Haft er eftir Herði Arnarsyni, forstjóra Landsvirkjunar, að tekjur félagsins hafi aldrei verið meiri eftir að hafa hækkað um 11% frá fyrra ári. „Þar munaði mestu um aukið selt magn og hækkandi álverð,“ er haft eftir honum.

Raforkusala Landsvirkjunar jókst um 430 gígavattstundir frá fyrra ári og var um 14,8 teravattstundir á árinu. Á síðasta ári var Búrfellsstöð II tekin í notkun auk þess sem annar áfangi Þeistareykjavirkjunar hóf rekstur.

Tveir nýir stórnotendur bættust í hóp viðskiptavina félagsins, en það eru gagnaverin Advania Data Centers og Etix Everywhere Iceland.

Hörður segir að miðað við núverandi stöðu megi auka arðgreiðslur. „Nú hafa skapast skilyrði til að auka arðgreiðslur Landsvirkjunar í skrefum til eiganda síns, en síðastliðinn áratug hefur fyrirtækið fjárfest fyrir um einn milljarð dollara í nýjum orkumannvirkjum og á sama tíma greitt niður skuldir fyrir einn milljarð dollara.“

Þeistareykjastöð er fyrsta jarðvarmastöð sem Landsvirkjun byggir frá grunni, en ...
Þeistareykjastöð er fyrsta jarðvarmastöð sem Landsvirkjun byggir frá grunni, en annar áfangi hennar var tekinn í gagnið í fyrra. mbl.is/Helgi Bjarnason
mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK