Loka Skelfiskmarkaðinum og setja á sölu

Hrefna Sætran á Skelfiskmarkaðinum.
Hrefna Sætran á Skelfiskmarkaðinum. mbl.is/Valli

Skelfiskmarkaðinum hefur verið lokað eftir rúmlega hálft ár í rekstri. Skelfiskmarkaðurinn er að hluta í eigu matreiðslumeistarans Hrefnu Rósu Sætran, sem í félagi við aðra á veitingastaðina Fiskmarkaðinn og Grillmarkaðinn. Meðeigendur Hrefnu að Skelfiskmarkaðnum eru Ágúst Reynisson, Guðlaugur Frímannsson, Axel B. Clausen og Eysteinn Orri Valsson. Axel var framkvæmdastjóri og Eysteinn rekstrarstjóri staðarins.

Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að tekið hafi að halla undan fæti þegar fjöldi gesta staðarins veiktist af nóróveiru í nóvember, en þeir höfðu borðað skelfisk á staðnum.

Haft er eftir Hrefnu í tilkynningunni að hún og samstarfsfólk hennar hafi gert allt sem þau gátu til að halda staðnum gangandi, en því miður hafi hún og viðskiptafélagar hennar á endanum þurft að taka ákvörðun um hvort réttast væri að reyna áfram og vona það besta, eða fara þá leið sem verður farin að loka staðnum.

„Þetta er mjög erfið ákvörðun en blákaldur veruleikinn er sá að þetta ömurlega atvik sem kom upp í nóvember hafði það mikil áhrif að þetta er bara því miður staðan. Salan minnkaði um meira en helming eftir þetta og það setur strik í reikninginn. Eftir þriggja ára undirbúning opnuðum við staðinn á erfiðum tíma og ég held það hafi ekki farið fram hjá neinum undanfarið að það er ekki auðvelt að reka veitingastað í dag og hvað þá þegar atvik sem þetta kemur upp,“ segir Hrefna í tilkynningunni.

Segist hún jafnframt vera stolt af því sem þeim hafi tekist að gera með staðinn, en að í viðskiptum gangi ekki alltaf allt upp. Þá sé gáfulegra að einbeita sér að því sem vel gangi og hún muni gera það með Fiskmarkaðinn og Grillmarkaðinn. Þá segir hún að nú sé Skelfiskmarkaðurinn formlega til sölu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK