Veldur milljarða tapi árlega

SAF segir stórar hópbifreiðar vera fluttar til Íslands og látnar …
SAF segir stórar hópbifreiðar vera fluttar til Íslands og látnar þjónusta ferðamenn án þess að greiddur sé virðisaukaskattur af starfseminni á Íslandi. Mynd úr safni. Morgunblaðið/Kristinn

Brotastarfsemi í ferðaþjónustu skekkir samkeppnismarkað og veldur fyrirtækjum og samfélaginu milljarða tekjutapi árlega. Engu skipti þá hvort um er að ræða erlenda eða innlenda aðila sem fara á svig við lög og reglur.

Þetta kemur fram í tillögum Samtaka ferðaþjónustunnar um skilvirkara eftirlit með erlendri og ólöglegri starfsemi í ferðaþjónustu, sem kynntar voru í dag.

Látnir sofa í farangurslestinni

Sem dæmi um brotastarfsemi, sem SAF segir yfirvöldum þegar hafa verið greint frá, er nefnt að Kínverjar búsettir í Kína og EES-ríkjum og með ökuréttindi þaðan taki 9 manna bíla eða stærri á leigu til einkanota. Þeir sæki svo hópa í Leifsstöð og aki um landið sem bílstjórar og leiðsögumenn, án tilskilinna leyfa og á verri kjörum en íslenskir kjarasamningar segja til um.

Þá séu stórir hópferðabílar fluttir til landsins. Þeir mæti svo hópum og leiðsögumönnum hér á landi án þess að greiða virðisaukaskatt af starfseminni á Íslandi.

Erlend hópbifreiðafyrirtæki eru enn fremur sögð senda bíla til sumardvalar á Íslandi og jafnvel lengur. Bílstjórar bílanna fái sumir greidd laun langt undir íslenskum lágmarkslaunum og beinlínis gert ráð fyrir að þjórfé frá farþegum sé stór hluti launa þeirra. Er aðbúnaður bílstjóranna sagður skelfilegur á köflum. Dæmi séu jafnvel um að þeir hafi þurft að búa sér íverurými í farangurslest bílanna.

Ferðamenn á Þingvöllum. Mynd úr safni.
Ferðamenn á Þingvöllum. Mynd úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikilla úrbóta þörf

SAF bendir á að óskilvirkt og illa fjármagnað eftirlit geri þeim fyrirtækjum sem stunda brotastarfsemi auðveldara um vik að leika lausum hala. Hér á landi sé ábyrgð á eftirliti og leyfisveitingum í höndum fimm ráðuneyta og níu opinberra stofnana.

Á fundum Samtaka ferðaþjónustunnar með fulltrúum margra þessara eftirlitsaðila á undanförnum vikum og mánuðum hafi komið í ljós að það sé samdóma álit atvinnurekenda og þeirra eftirlitsaðila sem rætt var við að mikilla úrbóta sé þörf.

„Áréttað skal að það eru sameiginlegir hagsmunir atvinnurekenda, launþega og hins opinbera að stöðva félagsleg undirboð og starfsemi í ferðaþjónustu sem ekki fylgir lögum og reglum. Á undanförnum árum hefur slík starfsemi haft sífellt neikvæðari áhrif á samkeppnisstöðu innlendra ferðaþjónustufyrirtækja sem bæst hefur ofan á versnandi stöðu í kjölfar mikilla kostnaðarhækkana, m.a. vegna gengis- og launaþróunar síðustu þriggja ára,“ segir í skýrslunni. Staðan nú kalli á „tafarlausar aðgerðir“ og mikilvægt sé að „stjórnvöld taki þegar í stað á þessum vanda með skýrum hætti enda eru fjárhagslegir hagsmunir samfélagsins alls, af aðgerðum sem bætt geta þessa stöðu hratt, augljósir.“

Vilja miðlæga skrá fyrir erlenda bíla

Leggur SAF til að farið verði í átak gegn skattsvikum. Þannig verði sérstakt átak sett á stofn strax í sumar í samvinnu við eftirlitsaðila til að stöðva skattasniðgöngu erlendra aðila í ferðaþjónustu á Íslandi. Vill SAF að ríkistjórnin verji sérstakri aukafjárveitingu til átaksins og bendir máli sínu til stuðnings á þann árangur sem náðst hefur í að ráða niðurlögum ólöglegrar heimagistingar.

Bifreiðagjöld verði enn fremur innheimt af erlendum bílum, líkt og lagt var til í fyrra í tillögum um endurskoðun skattlagningar bíla.

Eins vill SAF að lögregla fái aðgang að lifandi skrá um leyfishafa farþega- og vöruflutninga þar sem bílar í eigu hvers leyfishafa eru tilgreindir. Sérstakt rekstarleyfi verði gert fyrir hvern slíkan bíl í formi límmiða sem límist innan á hliðarrúðu. Þar komi svo fram nafn leyfishafa, skráninganúmer bíls og gildistími.

SAF leggur einnig til að komið verði á fót miðlægri skrá yfir erlenda bíla sem koma til landsins, sem lögregla og aðrir eftirlitsaðilar hafi beinan aðgang að. Tollgæslunni verði svo falið að merkja erlendu bílana með akstursleyfismiða þar sem fram komi númer bíls, komudagur og gildistími leyfisins.

SA vill að eftirlitsstofnunum verði tryggt fjármagn til að stórauka …
SA vill að eftirlitsstofnunum verði tryggt fjármagn til að stórauka vettvangseftirlit með greinum þar sem sjálfboðaliðastarfsemi er þekkt, s.s. í hestaleigu. Mynd úr safni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Refsiheimildir verði betur nýttar

Eftirlitsstofnunum verði einnig tryggt fjármagn til að stórauka vettvangseftirlit með greinum þar sem sjálfboðaliðastarfsemi er þekkt, s.s. í hestaleigu.

SAF vill líka sjá að stjórnvöld hefji þegar í stað vinnu við að greina og fjarlægja hindranir í lagaumhverfi sem geta komið í veg fyrir samvinnu eftirlitsaðila, sem og deilingu upplýsinga milli stofnana. Lykilstofnunum í eftirliti með félagslegum undirboðum og ólöglegri starfsemi í ferðaþjónustu verði enn fremur tryggt aukið fjármagn til að sinna vettvangseftirliti.

Þá vilja samtökin líka sjá áhrifaríkara eftirlit með heimagistingu, að fælingarmáttur brotastarfsemi verði aukinn með betri nýtingu á refsiheimildum og að komið verði á fót rafrænni ábendingagátt sem koma má á framfæri ábendingum til, leiki grunur á félagslegum undirboðum eða brotastarfsemi erlendra og innlendra aðila á vinnumarkaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK