Sekt FME lækkuð um 48 milljónir

FME sektaði Arctica finance um 72 milljónir árið 2017. Héraðsdómur …
FME sektaði Arctica finance um 72 milljónir árið 2017. Héraðsdómur staðfesti brot Arctica, en lækkaði sektina í 24 milljónir.

Héraðsdómur Reykjavíkur lækkaði á föstudaginn sekt sem Fjármálaeftirlitið hafði lagt á fjármálafyrirtækið Arctica finance upp á 72 milljónir króna árið 2017 vegna brota fyrirtækisins á lögum um fjármálafyrirtæki og reglum um kaupaukakerfi sem settar voru árið 2011. Var sektin lækkuð í 24 milljónir og þarf íslenska ríkið því að endurgreiða Arctica finance 48 milljónir.

Starfsmenn fyrirtækisins fengu að kaupa svokallaða B, C og D hluti í félaginu á árunum 2012-2017, en hver starfsmaður keypti 10 þúsund hluti á nafnverði, það er fyrir 10 þúsund krónur samtals. Var hver flokkur svo tengdur við ákveðna deild innan fyrirtækisins þar sem viðkomandi starfsmaður starfaði. Voru arðgreiðslur vegna hlutanna svo í samhengi við afkomu deildanna. FME taldi þetta þar með vera kaupaukakerfi í raun og lagði fyrrnefnda sekt á fyrirtækið.

Héraðsdómur staðfestir þessa niðurstöðu FME, en telur hins vegar að lögin frá 2011 hafi verið of víðtæk og ekki hægt að miða við þau fyrr en árið 2015 þegar þeim var breytt. Telur dómurinn því aðeins að brot Arctica hafi staðið yfir árin 2016 og 2017 og minnkar sektina í hlutfalli við tímabil brotanna.

Starfsmenn Arctica fengu meðal annars 88 milljónir í arð árið 2016 og 158 milljónir árið 2017, þótt heildarfjárfesting hluthafa í umræddum hlutum í félaginu væru aðeins 200 þúsund krónur. Segir í dómi héraðsdóms að fallist sé á sjónarmið FME um að verulegur munur hafi verið á fjárfestingu starfsmannanna í hlutum og þeim hagnaði sem þeir fengu á þeim grundvelli. „Var hér um að ræða svo stórkostlegan mun á fjárhagslegri áhættu fjárfestingar starfsmannanna og mögulegum hagnaði að bersýnilega gat ekki samræmst því sem tíðkanlegt er um arð af fjárfestingum í hlutum eða hlutabréfum. Þá voru umræddir hluthafar í reynd áhrifalausir um stjórn félagsins á hluthafafundum og höfðu þar af leiðandi aðra stöðu að því leyti en hluthafar í flokki A,“ segir í dóminum.

Jafnframt segir í dóminum að ljóst sé að hlutirnir hafi einungis verið ætlaðir þeim starfsmönnum sem unnu í umræddum deildum sem hlutabréfaflokkarnir vísuðu til. „Að mati dómsins fer því ekki á milli mála að téðir hlutir voru í reynd tengdir starfi starfsmanna stefnanda og jafnframt voru arðgreiðslur til þeirra háðar afkomu þeirra deilda sem starfsmennirnir störfuðu hjá og þar af leiðandi árangri starfa þeirra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK