Hafa áfram fulla trú á flugvélunum

Þota Icelandair af gerðinni Boeing 737 MAX.
Þota Icelandair af gerðinni Boeing 737 MAX. Árni Sæberg

„Við höfum sem fyrr fulla trú á þessum flugvélum og höfum ekki fengið neinar upplýsingar sem hafa áhrif á það sjálfstæða mat okkar. Við höfum í raun heldur ekki neinar raunverulegar upplýsingar um það hvað liggur að baki þessari ákvörðun í Bretlandi. En við sögðum það í gær að við myndum fylgja því sem væri að gerast í okkar nærumhverfi.“

Þetta segir Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Icelandair, í samtali við mbl.is inntur eftir viðbrögðum við þeirri ákvörðun breskra flugmálayfirvalda í dag að banna flug farþegaþotna af gerðinni Boeing 737 MAX-8 í breskri lofthelgi. Þrjár þotur Icelandair af þeirri gerð eru nú á leiðinni til landsins og verða síðan kyrrsettar af félaginu.

Þessi ákvörðun Icelandair er eingöngu vegna ákvörðunar yfirvalda í Bretlandi að sögn Jens. Icelandair hafi áfram fulla trú á flugvélunum. Ákvörðun breskra yfirvalda kemur í kjölfar þess að farþegaþota af þessari tegund fórst skömmu eftir flugtak í Addis Ababa, höfuðborg Eþíópíu, um síðustu helgi. Vél sömu tegundar fórst við Indónesíu á síðasta ári.

Gæti haft mikil áhrif á sumaráætlunina

Farþegaþotur í eigu Icelandair af gerðinni Boeing 757 munu hlaupa í skarðið að sögn Jens en um er að ræða eldri vélar félagsins. Kyrrsetning Boeing 737 MAX-8-flugvélanna kemur þannig ekki að sök til skemmri tíma litið en Jens segir aðspurður að ef kyrrsetningin vari í einhverja mánuði segði það sig sjálft að það hefði mikil áhrif á sumaráætlunina.

Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Icelandair.
Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Icelandair. mbl.is/Steingrímur Eyjólfsson

„Við erum ekki komin á þann stað að taka þá umræðu,“ segir Jens aðspurður hvort Icelandair yrði þá að leigja flugvélar í staðinn, en von er á sex öðrum Boeing 737 MAX-8-vélum í vor. Hins vegar yrði vissulega að skoða þá leið eða aðrar til þess að standa við flugáætlun félagsins. Spurður um stöðu Icelandair gagnvart Boeing segir hann:

„Það er eitthvað sem erfitt að spá fyrir um en það er enginn réttur sem skapast. Þetta er bara eitthvað sem við þyrftum að skoða með framleiðandanum þegar fram í sækir,“ segir Jens. Samtals hefur Icelandair samið um kaup á sextán Boeing MAX-8 og Boeing MAX-9 en sú síðarnefnda er lengri gerðin. Verða þær afhentar smám saman á næstu árum.

Spurður hvort flugmenn Icelandair hafi orðið varir við einhverja hnökra eða annað í tengslum við búnað Boeing MAX-8-vélanna sem sumir hafa tengt við slysin segir hann: „Nei, ekki neitt.“ Spurður hvort um einhverja aðra hnökra hafi verið að ræða segir hann: „Nei, þetta eru bara frábærar vélar sem hafa gengið vel í rekstri hjá okkur.“

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK