Þrýstingur eykst á Boeing og Bandaríkin

Þrýstingur á Boeing og bandarísk flugmálayfirvöld að kyrrsetja Boeing 737 …
Þrýstingur á Boeing og bandarísk flugmálayfirvöld að kyrrsetja Boeing 737 Max-vélarnar fer vaxandi. AFP

Bandaríska flugmálaeftirlitið og Boeing-flugvélaframleiðandinn sæta nú sívaxandi þrýstingi að kyrrsetja allar Boeing 737 Max 8-farþegaþotur eftir að slík vél hrapaði með 157 farþega innanborðs í Eþíópíu á sunnudag.

Eru bandarísk flugmálayfirvöld (FAA), flugfélög og framleiðandinn nú að einangrast sífellt meira í þeirri afstöðu sinni að Max 8-vélarnar séu öruggar. Nú í morgun bættist Indland í hóp þeirra ríkja sem kyrrsett hafa vélarnar, sem komið hafa við sögu í tveimur mannskæðum flugslysum á innan við fimm mánaða tímabili.

Boeing 737 Max 8-vélin hefur þegar verið kyrrsett af yfirvöldum í Nýja-Sjá­land, Sam­einuðu ar­ab­ísku fursta­dæm­unum, Kúveit, Ástr­al­íu, Kína, öllum ríkjum Evr­ópu­sam­bands­ins, Ind­landi, Indó­nesíu, Malasíu sem raunar bannar vélarnar alfarið í sinni lofthelgi, Namibíu, Óman, Singa­púr og nú síðast Indlandi.

Alls hafa þá 27 flugfélög, þeirra á meðal Icelandair og Norwegian Air, kyrrsett vélarnar og segir Guardian þar með um 40% af öllum Max-vélum sem eru í notkun hafa verið kyrrsettar.

Daniel K Elwell, starfandi stjórnandi FAA, sagði í gær bandarísk flugmálayfirvöld halda áfram „ítarlegri rannsókn sinni á öllum fáanlegum gögnum og safni upplýsinga úr öryggisprófunum frá stjórnendum og flugmönnum“ vélanna. „Til þessa hefur skoðunin ekki sýnt fram á nein kerfistengd vandamál, sem gefur okkur því engan grundvöll til að kyrrsetja vélarnar,“ hefur Guardian eftir Elwell.

Forsvarsmenn Boeing hafa á sama tíma ítrekað að þeir hafi fulla trú á öryggi vélanna, en segja unnið að uppfærslu hugbúnaðar, flugstýribúnaðar og leiðbeiningum flugmanna.

Segja nef vélarinnar snúa sjálfkrafa niður

Guardian segir flugmenn á að minnsta kosti tveimur bandarískum flugvélum engu að síður hafa kvartað yfir að nefið á Max 8-þotum þeirra beinist sjálfkrafa niður á við. Þá sagði Donald Trump Bandaríkjaforseti á Twitter í gær að nútímaflugvélar „væru orðnar allt of flóknar að fljúga“.

Samband bandarískra flugfreyja hefur þá hvatt American Airlines flugfélagið að kyrrsetja Boeing 737 Max 8-flota sinn þar til rannsókn hefur farið fram.

Loftöryggisstofnun ESB (EASA) kyrrsetti í gær flug allra véla af Max-tegundinni og tekur bannið þá bæði til Max 8- og Max 9-vélanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK