Óseldar íbúðir skipti hundruðum

Mikill skortur er á áreiðanlegum upplýsingum um hversu mikið húsnæði …
Mikill skortur er á áreiðanlegum upplýsingum um hversu mikið húsnæði er í byggingu. mbl.is/Sigurður Bogi

Séu tölur Íbúðalánasjóðs og Þjóðskrár skoðaðar í samhengi verður ekki betur séð en óseldar íbúðir á höfuðborgarsvæðinu skipti hundruðum. Þetta kemur fram í umræðupistli hagfræðideildar Landsbankans.

Þar segir að samkvæmt síðustu mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs (ÍLS) hafi í kringum 1.500 nýjar íbúðir verið settar á söluskrá á höfuðborgarsvæðinu seinni hluta ársins 2018 og að samkvæmt gögnum úr verðsjá Þjóðskrár Íslands hafi um 440 nýjar íbúðir selst á sama tíma.

Þá hafi um 300 nýjar íbúðir komið í sölu í janúar 2019 samkvæmt tölum ÍLS og um 80 nýjar íbúðir hafi verið seldar á fyrstu tveimur mánuðum ársins.

Samkvæmt pistli Landsbankans er mikill skortur á áreiðanlegum upplýsingum um hversu mikið húsnæði sé í byggingu, en upplýsingar frá ÍLS um hversu magar nýjar íbúðir séu settar á markaðinn séu mikilvægar.

„Töluverð umræða hefur verið um sölutregðu á nýbyggðum íbúðum á miðsvæðum Reykjavíkur en miðað við þessar tölur er þessi vandi væntanlega almennur. Lengi hafa verið uppi kenningar um að hér væri í miklum mæli verið að byggja tegundir íbúða sem lítil eftirspurn væri eftir. Tölurnar hér að framan benda til þess að eitthvað sé til í þessum kenningum.“

Verð nýrra íbúða fer áfram hækkandi

Hlutfall nýrra seldra íbúða af öllum seldum íbúðum fór þó úr 10% árið 2017 í 14% árið 2018 og voru nýjar seldar íbúðir að jafnaði 4% stærri en þær eldri, sem var mikil breyting frá 2017 þegar þær voru 18% stærri.

„Meðalstærð nýrra íbúða minnkaði úr því að vera 116 m2 á árinu 2017 niður í að vera um 103 m2 á árinu 2018. Þessi meðalstærð er þó væntanlega mun hærri en markaðurinn vill sjá ef tekið er mið af umræðu um þessi mál.“

Þrátt fyrir að líklega sé mikið af óseldu nýju húsnæði til á höfuðborgarsvæðinu virðist verð nýrra íbúða þó enn fara hækkandi. „Markaðurinn var tiltölulega rólegur á árinu 2018 og virðast nýjar íbúðir frekar hafa haldið verðinu uppi.“

„Fjöldi viðskipta á fasteignamarkaði hefur á síðustu mánuðum verið svipaður og verið hefur lengi. Það virðist því ekki vera þannig að mikil óvissa í tengslum við kjarasamninga og hagþróun almennt hafi haft mikil áhrif á markaðinn.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK