Pósturinn tapaði 293 milljónum króna

Íslandspóstur tapaði 293 milljónum króna í fyrra.
Íslandspóstur tapaði 293 milljónum króna í fyrra. Eggert Jóhannesson

Mikill viðsnúningur varð á rekstri Íslandspósts í fyrra. Þannig reyndist tap fyrirtækisins 293 milljónir króna samanborið við 216 milljóna króna hagnað árið á undan. Rekstrartekjur félagsins námu 8,7 milljörðum króna og lækkuðu um 5% frá árinu 2017.

EBITDA félagsins var 71 milljón króna og lækkaði um 688 milljónir frá árinu 2017 þegar hún var 759 milljónir króna. EBITDA-hlutfall var 0,8% og fór úr 8,3% frá árinu á undan.

Handbært fé frá rekstri var 135 milljónir króna í árslok og dróst verulega saman frá árinu á undan þegar það var 582 milljónir.

Fjárfestingarhreyfingar voru 1.133 milljónir króna á árinu 2018, samanborið við 645 milljónir 2017.

Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að árituðum bréfum hafi fækkað um 14% milli ára. 7% aukning hafi orðið í pakkasendingum frá útlöndum og þá hafi innlendar pakkasendingar aukist um 8%.

Heildareignir fyrirtækisins námu 6.350 milljónum króna í árslok 2018. Skuldir fyrirtækisins námu 4.113 milljónum króna og höfðu hækkað um tæplega 1 milljarð króna milli ára. Stóðu þær í 3.136 milljónum í árslok 2017.

Gagnrýnir Póst- og fjarskiptastofnun

Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspósts segir að uppgjörið fyrir nýliðið ár hafi valdið vonbrigðum. Hann gagnrýnir Póst- og fjarskiptastofnun fyrir að hafa ekki orðið við beiðnum fyrirtækisins um að hækka verðskrá á lögbundinni þjónustu sem fyrirtækinu er uppálagt að veita.

„Fjárhagsleg afkoma Íslandspósts var önnur en að var stefnt á árinu 2018. Meginforsendur fjárhagsáætlunar ársins gengu eftir að öðru leyti en því, að verðbreytingar á einkaréttarbréfum, sem nauðsynlegar voru til þess að standa undir alþjónustuskyldu, náðu ekki fram að ganga og 14,4% samdráttur varð í bréfasendingum innan einkaréttar milli ára, en hlutfallslega var það um tvöfalt meiri samdráttur en gert var ráð fyrir í áætlun.“

Ingimundur Sigurpálsson er forstjóri Íslandspósts.
Ingimundur Sigurpálsson er forstjóri Íslandspósts.

Segir Ingimundur að þetta hafi leitt til þess að tekjur félagsins hafi reynst 517 milljónum krónum lægri en árið áður auk þess sem tekjur af bréfa- og pakkasendingum til útlanda hafi dregist saman um 129 milljónir króna.

„Bókfært tap varð því af rekstri Íslandspósts, sem nam 293 milljónum króna á árinu 2018 í stað 201 milljónar króna hagnaðar, sem fjárhagsáætlun ársins gerði ráð fyrir.“

Árituðum bréfum fækkaði um 14% milli ára. Innlendum pakkasendingum fjölgaði …
Árituðum bréfum fækkaði um 14% milli ára. Innlendum pakkasendingum fjölgaði hins vegar um 8% og erlendum pakkasendingum um 7%. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK