Umferðin jókst um 30%

Stefán Úlfarsson matreiðslumaður á Þremur frökkum.
Stefán Úlfarsson matreiðslumaður á Þremur frökkum. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Veitingastaðurinn Þrír frakkar hefur verið afar vel sóttur síðustu vikur en staðurinn fagnar 30 ára afmæli í mars. Stefán Úlfarsson matreiðslumaður rekur staðinn, og af þessu tilefni bauð hann upp á 30% afslátt af öllu á matseðli. Upphaflega gerði hann ráð fyrir því að láta tilboðið gilda fyrstu vikuna en í ljósi aukinnar umferðar á staðinn og góðra viðbragða viðskiptavina ákvað hann að framlengja tilboðið út marsmánuð.

„Við ætluðum bara að hafa þetta í viku en við ákváðum að halda áfram og hafa þetta út marsmánuð. Viðbrögðin voru svo góð fyrstu vikuna. Það fór að birtast meira af landanum og það er mjög gaman að því.“

Uppátæki Stefáns og félaga er einkar áhugavert í ljósi þrumuræðu Þórarins Ævarssonar, framkvæmdastjóra IKEA á Íslandi, á ráðstefnu Neytendasamtakanna og Alþýðusambands Íslands í síðustu viku, þar sem hann gagnrýndi harðlega verðlagningu sumra veitingastaða og bakaría á landinu. Sagði Þórarinn verðlagninguna á tíðum yfirgengilega og að Íslendingar væru hætttir að fara út að borða.

Forvitnilegt erindi

„Það var mjög forvitnilegt erindi hjá honum og margt til í þessu,“ segir Stefán um erindi Þórarins en taldi þó að því væri að mestu leyti beint að skyndibitastöðum. „Laukur á pítsu fyrir 600 krónur og kokteilsósa á 300 krónur. Þetta er alveg fáránlegt,“ segir Stefán og vísar í dæmi Þórarins.

Eftir að hafa lækkað verðið hefur kúnnum á Þremur frökkum fjölgað um 30% að sögn Stefáns.

„Í raun er hans kenning búin að sanna sig þannig. Veltutölurnar eru þær sömu en það eru fleiri kúnnar,“ segir Stefán en að hans sögn hefur lægra verð augljóslega í för með sér meiri umferð um staðinn.

„Það er betri nýting á starfsfólkinu og betri nýting á húsnæðinu. Það eina sem ég á eftir að reikna út er hvernig þetta kemur út hráefnislega. En á móti kemur að fólk leyfir sér meira og fær sér kannski forrétt eða hvítvínsglas. Ef ég tek heildartöluna getur vel verið að þetta standi í stað eða verði hugsanlega meira,“ segir Stefán.

Mega ekki missa túristana

Aðspurður segist Stefán telja að fleiri veitingastaðir gætu gert hið sama og Þrír frakkar. Segir hann í raun nauðsynlegt að lækka verð í Reykjavík, hvort sem það er á veitingastöðum eða annars staðar.

„Fólk á að reyna að heimfæra þetta eins og best er fyrir hvert fyrirtæki fyrir sig. En það þarf að lækka vöruverð í landinu. Það er meginatriði. Við getum ekki verðlagt okkur út af markaðnum. Það er númer eitt, tvö og þrjú. Við megum ekki missa túristana og landinn á að geta haft það það gott að hann geti farið út að borða 1-2 í mánuði.“

Spurður að því hvort hann sjái fyrir sér að halda verðinu hjá sér eins og það er í dag segir Stefán það alls ekki útilokað. „ Það er það sem við eigum eftir að reikna út eftir mánuðinn. Hvort það verði af því eða hvort við förum hálfa leið. Það er ekkert útilokað með það.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK