Prentmet kaupir prentsmiðju Odda

Prentmet hefur keypt prentvinnslu Odda.
Prentmet hefur keypt prentvinnslu Odda. mbl.is/​Hari

Prentmet og Oddi hafa komist að samkomulagi um að Prentmet kaupi alla prentvinnslu Odda ásamt tækjum. Eru kaupin gerð með fyrirvara um samþykki samkeppnisyfirvalda, sameinuð prentsmiðja verður rekin að Höfðabakka 7 þar sem Oddi er til húsa, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Prentmeti.

Rúmlega 100 manns munu starfa hjá sameinuðu fyrirtæki, en sameinuð velta fyrirtækjanna var um 1.900 milljónir króna á síðasta ári. 

Ætlar Prentmet með kaupunum að snúa vörn í sókn til að tryggja framleiðslu á prentverki á Íslandi til lengri tíma, en íslenskur prentiðnaður er í harðri alþjóðlegri samkeppni „þar sem samkeppnishæfni innlendrar framleiðslu hefur beðið hnekki, m.a. vegna gengis- og launaþróunar“ að því er segir í tilkynningunni.

Er kaupunum ætlað að skapa sterkt fyrirtæki á íslenskum prentmarkaði sem getur boðið upp á heildarlausnir í prentverki sem byggir á áratuga reynslu og þekkingu beggja aðila. 

Prentsmiðjan Oddi er 76 ára og var upphaflega var stofnuð um prentverk, en hefur einnig framleitt og flutt inn umbúðir síðastliðin ár. Er salan á framleiðsluhluta Odda lokaskrefið í grundvallarbreytingu félagsins úr framleiðslufélagi í sölu- og markaðsfélag sem mun einbeita sér að umbúðum og umbúðalausnum til annarra fyrirtækja. Í kjölfar breytinganna mun Kassagerðin ehf., sem er að fullu í eigu móðurfélags Odda, einbeita sér að sölu innfluttra umbúða til viðskiptavina, með enn sterkara vöruvali og öflugri þjónustu.

„Kaupin á prentvinnslu Odda eru frábært tækifæri fyrir okkur, og munu hjálpa mikið til við að auka samkeppnishæfni íslensks prentverks ásamt því að auka vöruúrval og þjónustustig fyrirtækisins,“ er haft eftir Guðmundi Ragnari Guðmundssyni, framkvæmdastjóra Prentmets. „Staðan í prentiðnaðinum hér á landi er þannig að það er nauðsynlegt að sameina fyrirtæki og efla iðnaðinn til framtíðar. Við hjónin teljum okkur vera að taka stórt skref í þá átt með þessum kaupum.“  

Prentmet var stofnað árið 1992 og hefur verið fullbúin prentsmiðja frá 1995.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK