Gengið rýkur upp - athugunarmerkt bréf

Gengi Icelandair hefur rokið upp síðustu daga þrátt fyrir vandræðin …
Gengi Icelandair hefur rokið upp síðustu daga þrátt fyrir vandræðin á Boeing 737 Max 8-þotum félagsins.

Gengi hlutabréfa í Icelandair Group hækkaði afar skarpt strax á fyrstu mínútunum eftir að Kauphöll Íslands opnaði. 

Gengi Icelandair hækkaði á fyrstu þremur mínútunum um rúmlega 26% og stóð verð hvers bréfs í 10,84 kr.  um tíma en verðið nam 8,6 kr. við lokun markaðar í gær. 

Hækkunin gekk nokkuð til baka í næstu viðskiptum og nemur hún nú 16,05%, og stendur gengið í 9,98 kr.

Hækkunina má vafalaust rekja til tíðinda af WOW Air en í gærkvöldi kom fram að bandaríska fjárfestingafélagið Indigo Partners hefði hætt við fjárfestingu sína í íslenska flugfélaginu. Í dag hófu fulltrúar Icelandair Group viðræður um mögulega aðkomu fyrirtækisins að rekstri WOW Air.

Athugunarmerking

Í fréttatilkynningu Kauphallarinnar í morgun kom fram að að hlutabréf Icelandair hafi hlotið athugunarmerkingu með tilvísun í tilkynningu Icelandair Group hf. frá því í gærkvöldi þar sem tilkynnt var um fyrirhugaðar viðræður við WOW Air um aðkomu Icelandair að rekstri félagsins.

Segir enn fremur að athugunarmerking sé framkvæmd með vísan til ákvæðis 8.2 í reglum fyrir útgefendur fjármálagerninga.

„Kauphöllin getur ákveðið að athugunarmerkja fjármálagerninga viðkomandi útgefanda tímabundið ef aðstæður eru fyrir hendi sem leiða af sér umtalsverða óvissu varðandi útgefandann eða verðmyndun fjármálagerninganna,“ segir í fréttatilkynningu Kauphallarinnar.

Á miðvikudag hækkaði gengi Icelandair um 10,83% í kjölfar frétta af WOW Air þann daginn um að Skúli Mogensen, stofnandi og forstjóri WOW Air, hefði leit­ast eft­ir því að rík­is­sjóður Íslands veitti rík­is­ábyrgð fyr­ir láni sem fyr­ir­tækið hugðist slá.

Í gær hækkaði gengi Icelandair um 7,77%.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK