Hætta við pöntun á 49 737 MAX

Farþegaþota Garuda, Boeing 737 Max 8, á flugvellinum í Jakarta.
Farþegaþota Garuda, Boeing 737 Max 8, á flugvellinum í Jakarta. AFP

Indónesíska ríkisflugfélagið Garuda hefur tilkynnt bandaríska flugvélaframleiðandanum Boeing að félagið hafi hætt við pöntun á 49 Boeing 737 Max 8-þotum í kjölfar tveggja flugslysa sem kostuðu 346 mannslíf. Talið er að þetta sé fyrsta formlega afturköllunin á pöntuðum þotum af þessari gerð frá því farþegaþota Et­hi­opi­an Air­lines fórst fyrr í mánuðinum. 

„Við höfum sent bréf til Boeing þar sem við óskum eftir því að  afturkalla pöntunina,“ segir talsmaður Garuda, Ikhsan Rosan.

Hann segir ástæðuna vera þá að farþegar Garuda í Indónesíu hafi glatað trausti sínu og áliti á flugvélunum. Flugfélagið bíður svara frá Boeing við beiðninni. Rosan segir að fulltrúi Boeing muni koma til Indónesíu í næstu viku til þess að ræða ákvörðun Garuda um að hætta við pöntunina.

Garuda hefur þegar fengið eina flugvélina afhenta en alls var gerður samningur um kaup á 50 þotum og var listaverð þeirra, þegar pöntunin var gerð árið 2014, 4,9 milljarðar Bandaríkjadala, sem svarar til 578 milljarða króna. 

Að sögn talsmannsins eru fulltrúar Garuda jafnframt að ræða við Boeing um hvort skila eigi þotunni sem félagið hefur þegar fengið afhenta. 

Garuda var búið að greiða Boeing um 26 milljónir Bandaríkjadala og eru nú uppi hugmyndir um að breyta pöntuninni í aðra tegund farþegaþota frá Boeing.

mbl.is

Myntbreyta

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  CHF
  JPY

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir