Jafnrétti rætt á What Works ráðstefnunni

Michael Green, framkvæmdastjóri SPI, á fundi með Kópavogsbæ, sem innleitt …
Michael Green, framkvæmdastjóri SPI, á fundi með Kópavogsbæ, sem innleitt hefur vísitölu félagslegra framfara. Fleiri sveitarfélög hyggjast gera slíkt hið sama. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það skiptir miklu máli að halda What Works-ráðstefnuna á Íslandi sem er leiðandi land þegar kemur að jafnrétti kynjanna. Það skiptir líka máli að heyra hvað íslenskir sérfræðingar hafa að segja,“ segir Michael Green framkvæmdastjóri og einn af stofnendum Social Progress Imperativ, SPI sem stendur fyrir vísitölu félagslegra framfara.


Stofnunin stendur fyrir ráðstefnu í Hörpu dagana 1.-3. apríl nk. þar sem fjöldi erlendra og innlendra fyrirlesara tekur þátt. Green segir að gagnagrunnur SPI, sem unnið hafi verið með síðustu fjögur árin, sé umræðugrundvöllur í því skyni að ná heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbærni. Gögn bendi til þess að margar þjóðir hafi farið út af sporinu. Ekki bara í fátækustu löndunum heldur einnig þeim ríkari. Megi þar helst nefna Bandaríkin en Bretland, Ítalía og Kanada séu einnig í hópnum.

Að mati Green munu markmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbærni ekki nást fyrr en 2094 í stað 2030. Það þurfi því að grípa til aðgerða strax.

„Ráðstefnan í Hörpu er til þess hugsuð að fá fólk alls staðar úr heiminum til þess að ræða hvað þurfi að breytast til þess að ná betri árangri í félagslegum framförum. Ég vona að í lok ráðstefnunnar höfum við séð hlutina frá mismunandi sjónarhornum, séð nýjar stefnur og lausnir og tekið skref fram á við í áttina að sjálfbærni,“ segir Green sem telur að það myndist meiri tengsl á milli ráðstefnugesta að halda What works, á Íslandi. Ráðstefnugestir séu allir á sama stað en ekki hlaupandi á milli funda eins og t.d. í London.

What works-ráðstefnan hefur ekki verið haldin annars staðar en á Íslandi og Green segir marga nýta ráðstefnuna til þess að skoða landið í leiðinni. Hugmyndina að því að halda ráðstefnuna á Íslandi átti Rósbjörg Jónsdóttir, fulltrúi SPI á Íslandi.

„Kynjajafnrétti verður aðalumræðuefnið og á vel við að taka þá umræðu í ljósi þess hvernig Ísland hefur leitt í jafnréttismálum alveg frá kvennafrídeginum 1974.
Við erum afar ánægð með að Silvana Koch Mehrin, formaður og stofnandi Women Political Leader, og Halla Tómasdóttir, sem leiðir The B. Team, samtök fyrirtækjaleiðtoga um allan heim, tali til okkar. Það er líka mikill fengur í því að fá Helen Clark, fyrrverandi forsætisráðherra Nýja-Sjálands, í jafnréttisumræðuna,“ segir Green og bætir við að hitt málefnið sem sjónum verði beint að sé skortur á jafnræði bæði í fátækum og ríkum löndum. Það hafi orðið afturför á undanförnum árum og ef heimsmarkmiðin eigi að nást verði að finna lausnir.

Green segir að hans hlutverk á ráðstefnunni sé að hefja umræðuna um skrefin sem tekin hafa verið aftur á bak og spyrja af hverju það stafi og til hvaða nýju ráða þurfi að grípa. Að öðru leyti ætli hann að hlusta á það sem ráðstefnugestir hafi fram að færa.


Framfarir hjá fátækari ríkjum

„Miklar framfarir hafa átt sér stað hjá fátækari ríkjum og í sumum málum fer okkur mjög hratt fram. Má þar nefna lengri lífaldur og baráttuna við ýmsa sjúkdóma. Margt hefur breyst til batnaðar í fátækari ríkjum sem við tökum kannski ekki eftir. Það sama má segja um skrefin aftur á bak sérstaklega þegar kemur að því að virða fjölbreytileika fólks og réttindi þeirra,“ segir Green sem leggur áherslu á að stærsta áskorunin sé að taka salernismálin fastari tökum og koma þeim í lag. Náist það yrði stórt skref stigið í átt að sjálfbærni.

Green segir margt áhugavert í boði á What works m.a. flytji þar erindi framkvæmdastjóri Alþjóðabankans og fjárfestar. Mikilvægi viðskiptalífsins á Íslandi, þegar kemur að félagslegum áhrifum og hvernig aðkoma stjórnvalda eigi að vera, verði til umræðu en íslensk stjórnvöld hafi stutt vel við ráðstefnuna. Einnig muni fulltrúi Arion banka, sem er samstarfsaðili What Works, flytja erindi.

Lífskjör yngra fólks erfiðari

Vísitala æskunnar, Youth Progress Index, sem byggð er á sömu aðferðarfræði og SPI, verður sérstakt umfjöllunarefni á hliðarviðburði ráðstefnunnar. Green segir vísbendingar um að ungt fólk hafi farið verst út úr kreppunni og þeirra lífskjör verði þegar frá líði verri en foreldra þeirra.

„Við verðum að líta á stöðu unga fólksins, sérstaklega í tengslum við heimsmarkmiðin. Unga kynslóðin og loftslagsbreytingarnar eru málefni sem þarf að ræða ef við ætlum að sjá langtímaframfarir,“ segir Green og bendir á að efnahagslegir og félagslegir þættir þurfi ekki að vera andstæða hvorir annarra. Efnahagslífið eflist ekki til langframa ef jörðin sé ekki sjálfbær og drifkraftur í samfélögum. Green segir félagslegar framfarir brú fyrir langtíma efnahagslegar framfarir.

„Í sumum tilfellum getur ferðaþjónusta hjálpað til við félagslegar framfarir. Það á ekki eingöngu að hugsa um peningana sem með ferðamönnum koma eða fjölda þeirra. Það á að skoða hlutina út frá því hvernig ferðamennska getur ýtt undir félagslegar framfarir. Slík nálgun hefur gefist vel á Kosta Ríka. Það er því gleðiefni að fá Maria Amalia Revlo, fyrrverandi ferðamálaráðherra Kosta Ríka, til að segja frá hvað gert hefur verið þar í landi,“ segir Green og ítrekar að Íslendingar verði að skoða hvers konar ferðamennska henti best fyrir félagslegar framfarir á Íslandi.

„Í viðburði sem fjallar um tækni fáum við fyrirlesara frá Amazon Web Service sem er einn af samstarfsaðilum okkar á ráðstefnunni. Hann fer yfir tölfræði úr gagnagrunni og sérstakar framfarir. Það er áhugavert að heyra hvernig ný tækni býður upp á nýjar lausnir,“ segir Green.

Nýjar hugmyndir ekki nóg

„Ég er raunsæismaður og heimurinn væri svo miklu betri ef við hættum að gera það sem er heimskulegt. Vandamál leysast ekki alltaf með nýjum hugmyndum, oft er lausnin fólgin í því að hætta að gera það sem er heimskulegt. Það fer í mig að við skulum ekki leysa auðveld vandamál og þess vegna hef ég brennandi áhuga á því að gera eitthvað,“ segir Green sem er nú í Kaliforníu en öll fylki ríkisins ætla að taka upp skorkort í þeim tilgangi að nýta sem vegvísi að félagslegum framförum í átt að markmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbærni. Green segir að einnig verði unnið með ákveðnum borgum í Kaliforníu og hann reikni með að verkefnið taki a.m.k. níu mánuði.

„Bandaríkin eru aftarlega á merinni, þau eru í kringum 25. til 20. sæti þegar kemur að vísitölu félagslegra framfara. San Francisco skorar lágt í SPI þrátt fyrir fjárhagslega velgengni í Silicon Valley. Það er greinilegt að góðum efnahag fylgja ekki alltaf félagslegar framfarir. Það verður verkefni SPI í samráði við heimamenn að skoða,“ segir Green og bætir við að ætlunin sé að skoða hvað þurfi til að efla félagslegar framfarir, sérstaklega ef tillit er tekið til sjálfvirkni vegna notkunar vélmenna og hvað hugsanlega gerist í framtíðinni í þeim málum.


„Við látum okkur varða hvaða áhrif vísitala félagslegra framfara hefur á heiminn og það er mikilvægt að niðurstöður sem við fáum, í tilraunum, hugmyndum og ábendingum, verði öllum gerðar kunnar hvort sem við erum stödd í Evrópu, Bandaríkjunum eða á Indlandi,“ segir Green og bendir á að smærri lönd hafi tilhneigingu til þess að standa sig betur þegar kemur að SPI en stærri ríkin. Það sé meiri áskorun að stýra stóru landi en litlu og smáríkin hafi oftar tækifæri til þess að gera tilraunir sem erfiðara sé að framkvæmda í stærri löndum.

Green hlakkar til ráðstefnunnar og að koma til Íslands. Hann segist ætla að nýta tækifærið í þetta sinn og dvelja í nokkra daga til viðbótar eftir ráðstefnuna ásamt konu sinni. Honum líki mjög vel við Ísland og langi til að sjá meira af landinu en Reykjavík.

Framfarir á Norðurlöndunum

„Norðurlöndin standa sig vel í félagslegum framförum í átt að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Við verðum að skoða hvað gengur vel hjá norrænu þjóðunum og hvað megi betur fara,“ segir Michael Green. Hann segir að sem dæmi séu Danir að gera vel í heilbrigðismálum en standi sig síður þegar kemur að heilsufari.

Green segir að á hliðarviðburði á What Works-ráðstefnunni gefist tækifæri til þess að fara yfir stöðuna á Norðurlöndunum og fá þjóðirnar til að miðla upplýsingum.
Ísland á að beina sjónum sínum að því að skoða hver forgangsmálin ættu að vera til þess ná fram auknum félagslegum framförum, segir Michael Green.

Michael Green
Michael Green mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK