Segir enga röskun á flugi í sumar

Bjørn Kjos, forstjóri Norwegian, segir enga röskun verða á áætlunarflugi ...
Bjørn Kjos, forstjóri Norwegian, segir enga röskun verða á áætlunarflugi félagsins í sumar. AFP

„Allir farþegar sem hafa bókað flug með Norwegian komast á áfangastað,“ segir Bjørn Kjos, stofnandi og forstjóri Norwegian, í viðtali NRK í dag. Hann segir jafnframt að útilokað sé að óhapp gæti hafa orðið hjá félaginu vegna MCAS-öryggisbúnaðar Boeing 737-MAX 8-vélanna, en félagið rekur 18 slíkar.

Hann segist ekki geta sagt til hver orsök slyssins í Eþíópíu var, en jafnframt að „ef það er þetta tiltekna kerfi sem um er að ræða, þá eru okkar flugmenn vel þjálfaðir og tiltölulega einfalt að slökkva á þessum búnaði“.

Spurður hvort röskun verði á áætlunarflugi vegna kyrrsetningar Boeing-vélanna, segir hann svo ekki vera þar sem auðvelt er að leigja vélar til þess að sinna þessu flugi. Þá segir hann farþega félagsins ekki þurfa að óttast röskun ferða í sumar.

Norwegian varð fyrir áfalli í fyrra þegar vandamál komu upp í Dreamliner-þotum félagsins. Kjos segir það ekki vera sambærilegt tilfelli.

„Þarna voru vélar sem gátu tekið 340 farþega og svo þegar var fengin leiguvél tók hún aðeins 250, þannig að við vorum með 90 farþega sem voru útistandandi. Þetta vandamál er ekki til staðar með MAX-vélarnar þar sem leiguvélarnar ná að taka alla farþega.“

Hann hefur ekki áhyggjur af fjárhagslegum áhrifum af kyrrsetningu þessara 18 véla. „Þetta er bara eitt prósent af heildarsætafjölda félagsins,“ segir Kjos og bendir á að í tilfelli Dreamliner þurfti framleiðandinn að greiða fyrir leigu flugvéla og gerir hann ráð fyrir að niðurstaðan verði eins hvað MAX-vélarnar varðar.

Kjos segir stefnt sé að því að félagið skili hagnaði árið 2019. Spurður hvort hann geti fullyrt að svo muni verða svarar hann: „Það er ekkert öruggt í flugrekstri.“

Ljósmynd/norwegian.no
mbl.is

Myntbreyta

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  CHF
  JPY

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir