Kröfuhafar taka WOW air yfir

WOW air er komið í hendur skuldabréfaeigenda.
WOW air er komið í hendur skuldabréfaeigenda. Eggert Jóhannesson

Fjárfestar sem tóku þátt í skuldabréfaútboði WOW air í september síðastliðnum hafa með auknum meirihluta atkvæða ákveðið að taka félagið yfir og breyta kröfum sínum í hlutafé. Ákvörðunin er tekin á grundvelli heimildar sem virkjaðist í gær þegar ljóst var að WOW air myndi ekki standa við greiðslu ríflega 150 milljóna króna vaxtagreiðslu af skuldabréfaflokknum.

Skúli Mogensen hefur misst yfirráð yfir félaginu. Hann verður áfram …
Skúli Mogensen hefur misst yfirráð yfir félaginu. Hann verður áfram forstjóri félagsins eftir því sem heimildir mbl.is herma. Eggert Jóhannesson

Með ákvörðun fjárfestanna missir eignarhaldsfélagið Títan Fjárfestingafélag ehf. sem að fullu leyti er í eigu Skúla Mogensen, yfirráð yfir félaginu. Skúli verður eftir sem áður hluthafi í WOW air þar sem hann keypti um 11% þeirra bréfa sem boðin voru til kaups. Heildarfjárhæð útboðsins nam 50 milljónum evra, jafnvirði 6,8 milljarða króna.

Tilkynningin um yfirtöku skuldabréfaeigendanna á félaginu hafði mikil áhrif á hlutabréfamarkaðinn hér heima og lækkuðu bréf Icelandair Group skarpt í Kauphöll Íslands í kjölfar hennar.

Eftir því sem mbl.is kemst næst hefur tilkynning um breytt eignarhald ekki verið send Fyrirtækjaskrá.

Leita samkomulags við aðra kröfuhafa

Fulltrúi hinna nýju eigenda vinnur nú að því að ná samkomulagi við aðra kröfuhafa félagsins, einkum flugvélaleigusala, að þeir umbreyti skuldum WOW air við þá í hlutafé. Líkt og áður hefur verið greint frá er það svo stefna eigenda félagsins að fá nýtt fjármagn að félaginu til að tryggja framtíðarrekstrarhorfur þess.

Áreiðanlegar heimildir mbl.is herma að nýir eigendur WOW air hyggist ekki skipta um forstjóra félagsins á þessum tímapunkti og þá hefur ekki átt sér stað umræða um að skipta um stjórn félagsins. Liv Bergþórsdóttir hefur verið stjórnarformaður í félaginu frá árinu 2012. Ásamt henni sitja í stjórninni Helga Hlín Hákonardóttir lögmaður og Davíð Másson.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK