Flugfélög skoða að fjölga flugferðum

Frá Keflavíkurflugvelli.
Frá Keflavíkurflugvelli. mbl.is/Eggert

Hafin er vinna við að bjóða aftur 205 starfsmönnum Airport Associates, af þeim 315 sem sagt var upp í síðustu viku, nýjan ráðningarsamning. Sigþór Kristinn Skúlason, forstjóri félagsins, segir að þetta hafi verið eina leiðin þar sem breytingarnar í kjölfar gjaldþrots WOW air hafi breytt vaktatöflum og starfshlutfalli. Þá segir Sigþór að nokkur erlend flugfélög sem þegar fljúgi hingað til lands hafi þegar haft samband við félagið með það fyrir augum að fjölga hingað flugum.

„Það stóð alltaf til að ráða aftur fólk, það var vitað að stór hluti fengi boð um áframhaldandi stöf,“ segir Sigþór, en hjá félaginu starfa um 400 manns í dag. „Það er gjörbreyttur vinnutími og vaktir og í því felst að margir fá boð um minna starfshlutfall,“ segir hann og bætir við að með því að minnka starfshlutfall gefist þeim kostur á að bjóða fleirum að halda starfi sínu. „Með því viljum við minnka höggið,“ segir Sigþór.

„Skoða hvort hægt sé að fylla þetta stóra skarð

Spurður hvort einhver flugfélög hafi haft samband við Airport Associates í kjölfar gjaldþrots WOW air með það fyrir augum að fjölga flugferðum hingað til lands segir Sigþór svo vera. Segir hann fleiri en eitt og fleiri en tvö félög hafa hringt. „Við svona aðstæður hafa menn alltaf áhuga á að sjá hvað er hægt að gera,“ segir hann. „Það er verið að skoða hvort hægt sé að fylla þetta stóra skarð sem WOW skilur eftir sig.“

Sigþór Helgi Skúlason, forstjóri Airport Associates.
Sigþór Helgi Skúlason, forstjóri Airport Associates. Ljósmynd/Aðsend

Sigþór segist þó ekki vilja gefa upp hvaða félög það eru sem hafi haft samband, en tekur fram að það séu núverandi viðskiptavinir félagsins, en Airport Associates sér um flugafgreiðsluþjónustu fyrir flestöll flugfélög sem fljúga til Keflavíkur utan Icelandair.

Icelandair vinnur að endurskoðun flugáætlunar

Sigþór segir jafnframt að hann vilji ekki byggja upp of miklar væntingar áður en flugfélögin taki lokaákvörðun um hvort þau muni bæta við flugum, enda sé skammur tími til stefnu fyrir sumarið og ekki víst hversu miklu flugfélögin séu að horfa til að bæta við.

Í morgun var jafnframt greint frá því að Icelandair væri að vinna að endurskoðun flugáætlunar sinnar fyrir sumarið í kjölfar mikilla breytinga á samkeppnisumhverfi, en þar er að öllum líkindum vísað til gjaldþrots WOW air.

mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK