Creditinfo þekkingarfyrirtæki ársins

Creditinfo.
Creditinfo. mbl.is/Ernir

Lánshæfismatsfyrirtækið Creditinfo hlaut þekkingarverðlaunin í ár en það er Félag viðskipta- og hagfræðinga sem veitir verðlaunin.

Við val á þekkingarfyrirtæki ársins 2019 var horft til þeirra fyrirtækja sem þóttu hafa skarað fram úr á erlendum mörkuðum síðastliðin ár. Önnur fyrirtæki sem tilnefnd voru CCP, Marel og Nox Medical.

Er þá einkum litið til þeirrar stefnumótunar og hugmyndafræði sem býr að baki þeim árangri sem markaðssókn erlendis hefur borið. Sömuleiðis var hort til þess hvernig fyrirtæki hefur vaxið erlendis undanfarin ár sem og hver framtíðarsýn fyrirtækisins með tilliti til erlendar sóknar er.

„Ég er afar stoltur af því að Creditinfo hefur hlotið þekkingarverðlaunin þar sem helsta forsenda þess að fara með fyrirtækið á sínum tíma á erlenda markaði var sú að koma þekkingunni okkar í verð,“ sagði Reynir Grétarsson eftir að ljóst var að Creditinfo hlaut verðlaunin.

Reynir Grétarsson, stofnandi Creditinfo.
Reynir Grétarsson, stofnandi Creditinfo. mbl.is/Eggert

„Það hljómar einfalt en sú vegferð að selja þekkingu eða nýsköpun og tækni tók tíma og margar vinnustundir hjá frábæru samstarfsfólki. Þrátt fyrir reynsluleysi í upphafi þá vorum við með réttan fókus og þetta tókst með seiglu og trú á okkar þekkingu,“ sagði Reynir.

Starfa í 32 löndum

Creditinfo hefur vaxið gríðarlega undanfarin ár. Félagið steig sín fyrstu skref utan Íslands árið 2002 en í dag starfar fyrirtækið í 32 löndum og á í viðskiptum við félög í 45 löndum víðs vegar um heim og er orðið leiðandi á heimsvísu á sviði áhættustýringar og miðlun fjárhagsupplýsinga. Gerir fyrirtækið enn fremur ráð fyrir áframhaldandi vexti á erlendum mörkuðum og þá einkum í Asíu.

Fyrirtækið var stofnað árið 1997, upphaflega undir merkjum Lánstrausts, og hefur sótt á markaði þar sem önnur íslensk fyrirtæki sækja ekki gjarnan til. Í samstarfi við Alþjóðabankann og International Finance Corporation (IFC) hefur Creditinfo til að mynda hafið starfsemi á vanþróaðri mörkuðum, meðal annars í Kenía, Srí Lanka, Óman og í Palestínu.

„Creditinfo Group hefur þróað fjölda lausna til að auðvelda ákvörðunartöku í viðskiptum og hefur félagið verið í samstarfi við alþjóðastofnanir, fjármálafyrirtæki og seðlabanka markað sterka markaðsstöðu í Afríku, Balkanlöndunum og í Austur Evrópu,“ segir Reynir Grétarsson stofnandi og stjórnarformaður Creditinfo.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK