Hyggst endurvekja rekstur WOW air

Skúli Mogensen stofnaði flugfélagið WOW air árið 2012.
Skúli Mogensen stofnaði flugfélagið WOW air árið 2012. mbl.is/RAX

Skúli Mogensen, stofnandi og fyrrverandi forstjóri WOW air, sem tekið var til gjaldþrotaskipta í síðustu viku, hyggst endurvekja rekstur flugfélagsins.

Fréttablaðið greinir frá þessu og vísar til fjárfestakynningar, sem mun vera dagsett í gær, sem Skúli hafi látið útbúa fyrir nýja lággjaldaflugfélagið. Fram kemur að Skúli og aðrir lykilstarfsmenn WOW air leiti um þessar mundir fjármögnunar upp á 40 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur um 4,8 milljörðum króna, til að standa straum af kostnaði við upphaf rekstursins.

Í kynningunni komi fram sú stefna félagsins að reka „harða lággjaldastefnu“, svipaða þeirri sem hafi verið við lýði hjá WOW air á fyrstu árum flugfélagsins.

Þá stefni fyrirhugað félag á að reka til að byrja með fimm Airbus-farþegaþotur, fjórar af gerðinni A321neo og eina af gerðinni A320neo.

Mbl.is hafði samband við Skúla og bar málið undir hann. Svaraði Skúli því til að hann gæti ekkert tjáð sig um málið á þessum tímapunkti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Myntbreyta

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  CHF
  JPY

Erlendar viðskiptafréttir