Fleiri ferðamenn og færri tengifarþegar

Hægt er að lesa út úr flutningatölum Icelandair fyrir marsmánuð …
Hægt er að lesa út úr flutningatölum Icelandair fyrir marsmánuð að vægi ferðamanna í bókuðum sætum flugfélagsins hafi aukist á milli ára. mbl.is/Eggert

Icelandair flutti 268 þúsund farþega í marsmánuði, sem er aukning um 3% miðað við mars á síðasta ári. Sætanýtingin var þó ögn verri en í fyrra, eða 81,2% samanborið við 81,9% í mars í fyrra. Framboðið á flugsætum var aukið um 6% á milli ára. Þetta kemur fram í flutningatölum frá Icelandair, sem birtar voru í kvöld.

Í samantektinni kemur fram að 45% farþeganna (121 þúsund) hafi verið á leiðinni til Íslands og að farþegum í þeim hópi hafi fjölgað um 13% á milli ára. Næststærsti hópurinn voru svo tengifarþegar (104,5 þúsund), en þeim fækkar á milli ára um 7%. Farþegar frá Íslandi og út í heim voru svo minnsti hópurinn (42 þúsund).

Fjallað er um þessar tölur á vef Túrista og það sagt nýlunda að Icelandair birti flutningatölurnar sundurliðaðar með þessum hætti. Kristján Sigurjónsson ritstjóri miðilsins segir að sú ákvörðun gæti mögulega haft eitthvað með fall WOW air að gera.

„Fyrir íslenska ferðaþjónustu og íslenskt efnahagslíf skiptir nefnilega miklu máli að vægi erlendra ferðamanna í þotum Icelandair aukist á kostnað tengifarþeganna sem staldra aðeins stutta stund í Leifsstöð á milli ferða sinni milli Evrópu og Norður-Ameríku,“ skrifar Kristján á vef sinn.

Í samantektinni frá Icelandair Group segir einnig að farþegar Air Iceland Connect hafi verið 23 þúsund í síðasta mánuði, en þeim fækkaði um 19% á milli ára. Það skýrist aðallega af því að flugi til Aberdeen og Belfast hefur verið hætt. Sætanýting Air Iceland Connect var 68%, sem er aukning um 8,1 prósentustig á milli ára.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK