Frestur langt fram í tímann ekki í boði

Tómar höfuðstöðvar WOW air eftir gjaldþrot félagsins.
Tómar höfuðstöðvar WOW air eftir gjaldþrot félagsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ætli fyrrverandi lykilstarfsmenn WOW air að endurreisa félagið þurfa þeir að sækja um nýtt flugrekstrarleyfi frá grunni. Hins vegar gæti málshraði slíkrar umsóknar verið talsvert styttri en þegar um algjörlega nýtt félag er að ræða þar sem líklega yrði byggt á gögnum fyrra flugrekstrarleyfis og þar með væru flestöll gögn til staðar.

Síðustu daga hefur verið greint frá því að Skúli Mogensen, stofnandi WOW air, leiti nú fjárfestingar upp á 5 milljarða fyrir 49% hlut í félaginu, en þar af stefni hann á hópfjármögnun fyrir allt að 5 milljónum evra, eða sem nemur um 670 milljónum króna. Skiptastjóri segir mögulega kaupendur að eignum þrotabúsins þó ekki hafa endalausan frest til að koma félaginu af stað aftur.

Leyfinu var skilað inn og þá þarf að sækja um nýtt leyfi

Þegar WOW air varð gjaldþrota í síðasta mánuði var flugrekstrarleyfi félagsins skilað inn. Þórhildur Elín Elínardóttir, upplýsingafulltrúi Samgöngustofu, segir í samtali við mbl.is að ekki sé hægt að færa leyfi á milli kennitalna, heldur þyrfti mögulegur nýr rekstraraðili að sækja aftur um flugrekstrarleyfi. Skiptir þá engu máli hvort viðkomandi hafi verið í flugrekstri áður eða ekki. Í tilfelli WOW air þýðir þetta að sækja þarf um leyfið frá grunni.

Þórhildur Elín Elínardóttir, samskiptastjóri Samgöngustofu.
Þórhildur Elín Elínardóttir, samskiptastjóri Samgöngustofu.

Þórhildur segist ekki geta tjáð sig um málefni einstaka umsækjenda og gat ekki gefið upplýsingar um málshraða umsókna. Segir hún þó að málshraðinn byggi á gæðum umsóknargagna og þeim undirbúningi sem lagður hafi verið í slíka vinnu. Þegar um sé að ræða umsókn sem byggi á fyrra flugrekstrarleyfi sé ekki útilokað að málshraðinn gæti verið nokkru styttri, þ.e. ef stofnunin þarf ekki að leiðbeina umsækjanda ítarlega í umsóknarferlinu og öll gögn ligga fyrir.

Opnir fyrir mögulegri endurreisn

Sveinn Andri Sveinsson, annar skiptastjóri í þrotabúi WOW, segir skiptastjóra sýna mögulegri endurreisn félagsins skilning og að þeir væru opnir fyrir því að skoða mögulegan hag almennra kröfuhafa af því að fyrrverandi stjórnendur myndu endurreisa félagið og ráða inn hluta af sama starfsfólkinu. Slíkt myndi draga úr forgangskröfum í búið þar sem kröfur um að greiða uppsagnarfrest falli út fái viðkomandi vinnu á uppsagnarfrestinum. Segir Sveinn Andri að slíkt fyrirkomulag gæti verið til haga fyrir almenna kröfuhafa og gæti talið sem greiðsla upp í eignir búsins. Meðal eigna eru vörumerki, bókunarkerfi, heimasíða og hugbúnaður. „Svo gætu nýir eigendur líka keypt varahluti og verkfæri,“ segir hann, en bætir við að slíkir hlutir séu nokkuð auðseljanlegir á markaði ef komi til þess að félagið sé ekki endurreist.

Sveinn Andri Sveinsson.
Sveinn Andri Sveinsson. mbl.is/G.Rúnar

Ekki hægt að gefa frest langt fram í tímann

Sveinn Andri segir að engin ákveðin tímamörk hafi verið sett af hálfu skiptastjóra og að í raun séu það aðeins þeir sem reyni að fjármagna nýjan rekstur sem séu undir tímapressu. Þar þarf meðal annars að hafa í huga hvaða tímafrest eigendur flugvélanna sem WOW air notaði eru tilbúnir að gefa áður en þeir færa þau í önnur verkefni. Segir Sveinn að skiptastjórar hafi ekki viljað setja jafn þröngan og stífan ramma og aðrir, „en það blasir við að við getum ekki verið að gefa mönnum einhverja greiðslufresti langt fram í tímann.“ Ef ekkert verði af endurreisn WOW sé ekkert annað í stöðunni en að reyna að búa til verðmæti úr eignum þess á annan hátt.

Skúli Mogensen staðfesti við mbl.is í dag að unnið væri meðal annars að hópfjármögnun, en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um stöðu mála.

Skúli Mo­gensen hyggst end­ur­reisa flug­fé­lagið WOW air.
Skúli Mo­gensen hyggst end­ur­reisa flug­fé­lagið WOW air.
mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK