Taka 757-200 á leigu og fella niður flug

Icelandair tekur Boeing 757-200-vél á leigu fram í lok september.
Icelandair tekur Boeing 757-200-vél á leigu fram í lok september. mbl.is/Eggert

Icelandair hefur gengið frá leigu á Boeing 757-200-flugvél í kjölfar breytinga á flugáætlun sem kom til vegna kyrrsetningar á nýjum Boeing 737 MAX-flugvélum félagsins. Þá verða um 100 ferðir á tímabilinu 1. apríl til 15. júní felldar niður vegna breytinganna, en það eru um 3,6% flugferða félagsins. Félagið hefur fellt niður flug til nokkurra áfangastaða í Ameríku undanfarið, en ætlar sér að auka framboð sitt á flugi til Suður-Evrópu vegna breytinga á samkeppnisumhverfi, en það má líklega skýra af gjaldþroti WOW Air.

Icelandair segir að flugáætlun félagsins miði núna við að Boeing 737 MAX-flugvélarnar verði kyrrsettar til 16. júní. Áður hafði félagið tilkynnt að það hefði tekið tvær Boeing 767-breiðþotur á leigu sem koma til félagsins á næstunni. Jafnframt var greint frá að viðræður stæðu yfir um leigu á þriðju 767-vélinni. Í dag var svo tilkynnt að þriðja vélin bættist við, en hún verður 757-200. Bæði 757-200- og 767-vélarnar eru nokkuð stærri en 737 MAX og því telur Icelandair að sætaframboð muni verða nánast óbreytt þrátt fyrir fækkun ferða. 757-200-vélin tekur 184 í sæti og verður hún í rekstri frá miðjum maí fram í lok september. Í flestum tilfellum þar sem flug er fellt niður verður um að ræða flug til áfangastaða þar sem fleiri en eitt flug eru í boði sama dag.

Fram kemur í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar að fjárhagsleg áhrif kyrrsetningarinnar séu á þessu stigi óviss, en það skýrist meðal annars af því að ekki liggi fyrir hversu mikið af þeim kostnaði sem hlýst af kyrrsetningunni fæst bættur frá framleiðanda.

Icelandair hefur ákveðið að hætta við flug til Cleveland í Bandaríkjunum og Halifax í Kanada á þessu ári. Hins vegar ætlar félagið að bæta við framboði til Alicante á Spáni og verða þrjú flug í viku í sumar þangað.

Í tilkynningunni kemur einnig fram að hafin sé vinna við að bæta vélum við flugvélaflota Icelandair sem einungis eru útbúnar almennu farrými. Mun fleiri sæti verða í þessum vélum en í núverandi vélum félagsins sem lækkar kostnað á hvert framboðið sæti. Eru þessar vélar sérstaklega hugsaðar fyrir flug utan áfangastaða í kjaraleiðarkefi félagsins, til dæmis sumardvalarstaða eins og Alicante og Tenerife. Gert er ráð fyrir að fyrstu vélarnar með þessari uppsetningu verði komnar í rekstur í byrjun næsta árs.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK