Gaman-Ferðir hættar starfsemi

Ferðaskrifstofan Gaman-Ferðir hefur skilað inn ferðaskrifstofuleyfi sínu og hætt starfsemi. Í tilkynningu frá ferðaskrifstofunni segir að fall WOW air, sem átti 49% hlut, hafi orðið félaginu mun þyngri baggi en gert hafði verið ráð fyrir. 

„Þótt félagið hafi staðið vel að vígi varð orðið ljóst að lausafjárstaða félagsins næstu 6 mánuðina yrði ekki nægjanlega sterk til þess að réttlæta áframhaldandi starfsemi og mun hreinlegra að stöðva reksturinn áður en viðskiptavinum og starfsfólki yrði gerður fjárhagslegur skaði,“ segir í tilkynningu. 

Þá er bent á að Gaman-Ferðir báru lögbundnar tryggingar sem munu grípa inn í og endurgreiða þeim sem komast ekki í fyrirhugaða ferð. Farþegar þurfa að gera kröfu í tryggingaféð rafrænt í gegnum þjónustugátt Ferðamálastofu til þess að fá endurgreiðslu. Farþegar geta einnig haft samband við Ferðamálastofu. 

WOW air keypti helmingshlut í Gaman-Ferðum árið 2015. Mynd tekin …
WOW air keypti helmingshlut í Gaman-Ferðum árið 2015. Mynd tekin af því tilefni: Forstöðumaður hópadeildar Gaman-Ferða, Skúli Mogensen forstjóri WOW air, Þór Bæring framkvæmdastjóri Gaman-Ferða og Engilbert Hafsteinsson framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs WOW air og stjórnarmaður í stjórn Gaman-Ferða. Mynd/WOW

Unnu náið með WOW air frá upphafi 

Ferðaskrifstofan Gaman-Ferðir var stofnuð árið 2012 af Þór Bær­ing Ólafs­syni og Braga Hinrik Magnús­syni. Ný­lega bætt­ust við Berg­lind Snæ­land og Ingi­björg Ey­steins­dótt­ir. WOW air keypti helm­ings­hlut í ferðaskrif­stof­unni árið 2015 en fyr­ir­tækin höfðu unnið sam­an frá stofn­un WOW air. 

Þór Bær­ing Ólafs­son starfaði sem fram­kvæmda­stjóri Gam­an-Ferða og Bragi Hinrik Magnús­son sem for­stöðumaður hópa­deild­ar. Þór og Bragi Hinrik hafa starfað í ferðageir­an­um síðan 2003 en þá stofnuðu þeir ferðaskrif­stof­una Mark­menn. Árið 2005 keypti svo Ice­land Express ferðaskrif­stof­una Mark­menn og í kjöl­farið breytt­ist nafnið í Express-Ferðir.

Þegar WOW air var stofnað í lok árs 2011 ákváðu þeir Þór og Bragi að stofna nýja ferðaskrif­stofu og gerðu sam­starfs­samn­ing við WOW air. Til að byrja með voru fót­bolta­ferðir og tón­leika­ferðir í aðal­hlut­verki en hægt og ró­lega jókst vöru­úr­valið og þegar mest var bauð fé­lagið upp á sól­ar­ferðir, fót­bolta­ferðir, tón­leika­ferðir, borg­ar­ferðir, golf­ferðir, skíðaferðir, æf­inga­ferðir fyr­ir íþrótta­fé­lög, íþrótta­mót, auk ýmissa sérferða og hóp­ferða fyr­ir all­ar gerðir af hóp­um. 

Fréttin hefur verið uppfærð. 

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK